laugardagur, september 26, 2009

Daglegt líf: Sjokkerandi verðsamanburður

Ég skrapp út í búð seint í gærkvöldi - þurfti að redda mjólk - og fór í 10/11 í nágrenninu. Það hvarflaði að mér að kaupa lítinn brauðpoka í leiðinni en mér brá snarlega þegar ég sá verðið: 278 kr! Mér fannst þetta hátt verð fyrir heilt samsölubrauð, hvað þá hálft! Ég kíkti í budduna til samanburðar og fann strimil úr Bónus. Þar var brauðið með ódýrara móti: 99 kr.!

Í dag fór ég aftur út í búð og hafði þetta brauðsjokk sérstaklega í huga. Fór í gegnum Hagkaup til að tékka á brauðinu þar og fann sama brauð á 198 kr. Eftir það átti ég leið í Krónuna: 147 kr. Sem sagt, nokkurn veginn eftir bókinni: Bónus: 99 kr. - Krónan: 147 kr. - Hagkaup: 198 kr. - 10/11: 278 kr. Það skiptir svo sannarlega máli hvað maður kaupir vöruna, eins og menn vita! Oft er um tvöfalt verð að ræða - jafnvel þrefalt - á milli búða.

Undanfarin ár hefur mér fundist Krónan vera samstíga Bónusi í verði - kannski krónu dýrari. Nýlega komst ég hins vegar að því að það er liðin tíð. Margt er reyndar á svipuðu verði og í Bónus (og fullt af fínum tilboðum) en svo inni á milli eru vörurnar mun dýrari (þannig græða þeir á grunlausum kúnnum). Krónan er að minnsta kosti stórvarasöm ef maður ætlar að sópa úr hillunum. Ég hef minnst á þetta við marga kringum mig undanfarið en læt flakka hér með eina sögu af þistilhjörtum:

Ég fór í Hagkaup fyrir um tveimur vikum síðan í leit að þistilhjörtakrukku (frá Sacla). Ég gerði mér væntingar um að hún myndi kosta um 5-600 kall. Ekki mikið dýrara en það. Hún kostaði hins vegar svimandi 978 krónur! Ég snaraði mér undir eins út í Bónus þar sem ég þóttist viss um að geta fengið krukkuna að minnsta kosti nokkrum hundraðköllum undir því verði. Þar brá mér hins vegar á hinn veginn: 398 kr.!! Hvernig stendur á svona ótrúlegum verðmun? Nokkrum dögum síðar tékkaði ég á nákvæmlega sömu vöru í Krónunni, til að hafa allt á hreinu, og átti von á að verðið myndi liggja þarna mitt á milli, en viti menn, verðið var nákvæmlega það sama og í Hagkaupum: 978 krónur sléttar!!! Eftir það hef ég verið mun varkárari í þeirri búð og haldið mig einungis við nauðsynjar og þær vörur sem Bónus selur alls ekki.

Engin ummæli: