laugardagur, september 19, 2009

Kvikmyndir: District 9

Ég fór í bíó í gær, aldrei þessu vant, og skellti mér á frumsýningu á myndinni "District 9". Þetta er sérlega óvenjuleg mynd. Hún fjallar um samskipti manna og geimvera eftir að geimskip "strandar" fyrir ofan Jóhannesarborg í Suður-Afríku einhvern tímann í framtíðinni. "Fyrir ofan" segi ég, því skipið brotlenti ekki heldur hékk það á himnum, hreyfingarlaust, langtímum saman og varð að endanum sem tröllaukið kennileiti borgarinnar. En ekkert gerðist fyrr en menn ákváðu að kanna skipið að innan. Þar fundu þeir geimverur í tugþúsundatali sem voru við það að veslast upp.

Myndin fjallar um samskipti manna og þessara geimvera eftir að þeim hefur verið komið fyrir á afmörkuðu svæði. Myndin er hreint ótrúlega vegna þess að hún er svo margt í senn: Hún er félagsleg ádeila á samskipti drottnara og hins kúgaða og þá spillingu sem þrífst kringum völd. Hún er vísindaskáldssaga, sem gerist í framtíðinni með mjög ferskum og spennandi pælingum sem virka mjög trúverðugar. Hún er líka spennutryllir því við lifum okkur inn í hlutskipti aðalsögupersónu sem er hundelt af yfirvöldum. Myndin er líka stríðsmynd í anda "Saving Private Ryan" með mjög nærgöngulum og blóðugum senum á köflum. Svo er hún líka sæt geimverumynd í anda E.T. (við kynnumst geimverunum svolítið persónulega og fáum samúð með þeim). Að endingu er þetta mögnuð sýndar-heimildarmynd (pseudo-documentary) því myndin er öll sett fram sem fræðileg umfjöllun á atburðum sem eiga að vera liðnir, með fréttaskotum og viðtölum. Á tímabili er myndavélin á hreyfingu og það magnar upp raunveruleikatilfinninguna. Fyrir vikið er þessi fjarstæða mynd ótrúlega trúverðug og kemur gjörsamlega aftan að manni.

Mér fannst beinlínis undarlegt að stíga út úr salnum og horfa á alla bílana á bílastæðinu fyrir utan. Ég hafði sogast svo rækilega inn í þessa skálduðu framtíð að mér fannst eins og ég væri að ganga um safn, með snyrtilega röðuðum fornbílum. Allt virkaði svo furðu friðsamt, snyrtilegt og haganlega skipulagt.

Engin ummæli: