sunnudagur, september 06, 2009

Daglegt líf: Breytingar haustsins

Vetrarstarfið er gengið í garð. Vigdís byrjaði að vinna í vikunni eftir drjúgt sumarfrí. Sú aðkoma var kannski ekki þægileg í ljósi niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu og þess uppnáms sem því fylgir. Hún skynjaði vanlíðan margra á sínum fyrsta vinnudegi. Það má segja að ég sigli lygnan sjó í samanburði. Vinnan mín er í sömu skorðum og í fyrra. Reyndar finnur maður hvernig þrengir að með óbeinum hætti. Buglið er undir þeirri pressu frá yfirvöldum að koma fleiri börnum í gegnum greiningu á skemmri tíma. Það þýðir fyrir okkur í skólanum að við höfum ívið styttri tíma til að vinna með hvern nemanda (4-6 vikur nú í stað 6-8 áður). Þetta finnst okkur miður og bitnar að einhverju leyti á faglegri vinnu okkar, en það má líka líta á þetta sem jákvæða pressu. Sjálfur finn ég fyrir því hvernig frítími minn í vinnunni (sem nýtist til undirbúnings fyrir næsta kennsludag) er minni ár frá ári.

Sú breyting á högum fjölskyldumeðlima sem er jákvæðust hlýtur að vera Hugrúnar og Signýjar. Þær eru báðar að færast upp um deild í leikskólanum. Hugrún er nú komin á Miðbæ (úr Norðurbæ) og Signý er komin í Suðurbæ. Þetta gekk áreynslulaust fyrir sig hjá þeim báðum. Hugrún tók þessu með stóískri ró, enda vön Miðbænum frá Signýju, en Signý var hins vegar mjög spennt og full tilhlökkunar eftir því að byrja á Suðurbæ. Þessi breyting hjá systrunum gekk í garð samtímis þannig að Hugrún fékk bara snagann hennar Signýjar (voða þægilegt fyrir okkur foreldrana). Þegar við vorum búin að skila Hugrúnu af okkur á Miðbæ gat Signý ekki beðið eftir að byrja á Suðurbæ og hljóp á undan mér á sína deild. Þar hefur hún unað sér vel alla vikuna. Þetta er gaman að sjá og vonandi til vitnis um metnað hennar, enda hefur hún oft útskýrt það fyrir okkur að undanförnu að hún ætli í Melaskóla þegar hún er búin með leikskólann.

Engin ummæli: