föstudagur, ágúst 28, 2009
Pæling: Óraunveruleikaþættir
Síðustu tvær vikur hefur verið á dagskrá Sjónvarpsins þáttur um Bresku konungsfjölskylduna. Maður hefur horft á fullt af raunveruleikaþáttum í gegnum tíðina en ég gat ekki varist þeim samanburði að finnast þessir þættir vera andhverfa slíkra þátta: eins konar óraunveruleikaþættir. Þarna er fjölskylda sem hefur ekkert sérstakt sér til dundurs annað en það að skoða hvernig við hin lifum lífinu og sveima yfir okkur með sinni ímynduðu verndarhendi (eða fjárstyrk). Þeirra líf er aðskilið raunveruleikanum. Þau horfa kannski ekki á okkur í sjónvarpinu í þar til gerðum raunveruleikaþáttum (eins og við hin) heldur læðast þau út á "vettvang" og eru þar stödd í eigin skinni og virða fyrir sér framgang lífsins utan kastalans hjá okkur hinum sem raunverulega þurfum að hafa fyrir því að lifa. Þar sem þau mæta í eigin persónu á vettvang, og hafa boðað komu sína með löngum fyrirvara, er ekki hjá því komist að öll upplifun þeirra kemur til með að vera "fölsk". Þau sjá ekki hið daglega amstur heldur uppstillta sparimynd. Það sem var hins vegar óraunverulegast af öllu fyrir mig að horfa upp á, og kannski óhugnanlegast í leiðinni, var sá hluti almúgans sem lifði og hrærðist í því að fylgjast með kóngafólkinu. Það fólk er kannski enn sorglegra því það hefur þó kost á að lifa raunverulegu lífi. Svo spyr maður sjálfan sig hvort áráttukennd hefð konungsfjölskyldunnar að "vernda" og veita blessun sína hinum og þessum góðgerðarsamtökum sé raunverulegur velvilji í okkar garð? Er þetta ekki bara sjálfsbjargarviðleitni í heimi sem efast um réttmæti þess að halda uppi fjölskyldunni? Svo hlýtur þetta að svala þörf þeirra fyrir raunverulegu lífi lítillega, ef þau hafa nagandi samviskubit yfir hlutskipti sínu yfir höfuð, það er að segja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli