fimmtudagur, ágúst 13, 2009

Fréttnæmt: Viðgerðarbrölt

Á mánudaginn var byrjaði leikskólinn aftur eftir mánaðarlangt sumarfrí. Í næstu viku byrja ég svo sjálfur aftur að vinna. Þessi vika sem nú er að klárast er því svolítið sérstök og hefur verið tilhlökkunarefni. Það er ekki oft sem maður getur notið þess að slappa af heima yfir daginn, jafnvel sofið út. Við Vigdís (sem er líka í fríi og verður það nokkrar vikur í viðbót) höfum verið býsna dugleg í útivistinni þessa fáu daga. Við fórum tvívegis í langan göngutúr kringum golfvöllinn við Gróttu og skelltum okkur líka í Heiðmörkina. Annað kom ekki tili greina í því blíðviðri sem gerði í byrjun vikunnar. En það er ekki það eina sem hvatti okkur til að flakka um fjarri hemilinu: Eigendur hússins eru eitthvað að bardúsa utandyra, í garðinum. Það er verið að lappa upp á húsið, mála gluggakarma, gera við svalirnar fyrir ofan okkur, sementskústa þrepin allt í kring og endursmíða girðinguna. Okkur grunar að þetta sé forleikurinn að einhvers konar söluferli. Við höfum klárlega gott svigrúm sem leigendur og höfum svo sem ekki stórar áhyggjur. Þetta minnir okkur samt á að við þurfum að fara að hugsa okkar gang. En á meðan þetta gengur yfir er heilmikið brölt í gangi og verst að það skuli þurfa að lenda á þessari viku, einmitt þegar við ætluðum að nýta fríið heima.

Engin ummæli: