föstudagur, ágúst 28, 2009

Þroskaferli: Tímatilfinning

Ég er að skrá hjá mér eftirminnilega málnotkun og framburð hjá Signýju og Hugrúnu. Kannski birti ég hér einhvers konar markvissa umfjöllun um það á næstunni. Þessa dagana tek ég hins vegar eftir því sérstaklega hvernig Signý reynir að sortera atburði í tíma.

Hún notar orðið "áðan" um það sem er liðið, jafnvel þó það sé margra vikna gamall atburður, eða notast við frasann "í gær". Hún notar þetta jöfnum höndum og gildir einu hvort atburðurinn sé síðan áðan, í gær eða fyrir mörgum dögum síðan . Ég er ekkert að leiðrétta hana neitt sérstaklega. Til þess þyrfti ég að stilla upp dagatali með henni, sem kemur til greina að gera á næstunni, en á meðan svara ég henni bara með réttri tímatilvísun. Það er eflaust svolítið ruglandi fyrir hana því það sem hún orðaði "í gær" var kannski bara áðan og það sem hún talaði um sem "áðan" gerðist kannski í gær. Hún er hins vegar að verða svolítið meðvituð um þetta því upp á síðkastið hefur hún beitt fyrir sig orði sem dekkar bæði þessi orð, sem er hið heimatilbúna: Áðanígær (í einu orði). Þetta orð vísar hins vegar bara stutt aftur í tímann. Þegar hún vill hins vegar vísa langt aftur í tímann (marga mánuði, hálft ár eða meira) þá dugar ekki að segja "áðanígær". Þá segir hún einfaldlega: "Þegar ég var lítil".

Engin ummæli: