þriðjudagur, júlí 21, 2009

Fréttnæmt: Heilsufarsskýrsla

Síðan Signý og Hugrún hættu á sýklalyfjunum fyrir um tveimur vikum síðan hefur dregið til tíðinda á ný. Signý fór með nefrennsli til læknis fyrir rúmri viku síðan og var ekki með nein önnur einkenni (okkur fannst endurkoma streptokokkasýkingar ólíkleg af þeim sökum). Þegar læknirinn fékk upplýsingar um að við foreldrarnir erum bæði með gróðurofnæmi úrskurðaði hann hana með það sama. Þetta er víst orðið mjög algengt hjá ungum börnum í dag þó það hafi verið fáheyrt fyrir 20-30 árum síðan. Hún fékk að taka Loritín, hálfa töflu, og virtist lagast eitthvað við það.

Um viku síðar, eða á þriðjudaginn var, fór Hugrún í rannsókn. Nú átti að skoða á ný bakflæðið hennar. Góðar líkur voru á því að það myndi lagast af sjálfu sér og til að gera langa sögu stutta leit út fyrir það. Ekkert sérstakt kom í ljós á myndunum. Við bíðum þó enn eftir úrskurði sérfræðinga sem eiga eftir að skoða þetta betur. Þetta er hins vegar mikill léttir. Við getum nú óhikað, ef að líkum lætur, farið með Hugrúnu í sund aftur. Þetta bakflæði olli blöðrubólgu sem vonandi er nú að baki.

Engin ummæli: