föstudagur, júlí 31, 2009

Upplifun: Leyndur staður í Heiðmörk

Við Hugrún drifum okkur í Heiðmörk í dag til að hitta Beggu og Guðnýju. Signý var á meðan upptekin heima; hún átti von á vinkonu sinni í heimsókn. En við Hugrún nutum veðursins úti á meðan. Ég reiknaði nú ekki með að ganga neitt sérlega mikið með henni, en hún gerði sér lítið fyrir og strunsaði upp göngustíginn, eins og í kraftgöngu. Hún linnti varla látum í heila tvo tíma nema rétt til að koma til móts við okkur hin og til að koma sér notalega fyrir í laut með nesti. Jón og Margrét slógust líka í hópinn með Melkorku sinni um það bil þegar Begga og Guðný voru á heimleið. Þær Melkorka náðu betur saman en nokkurn tímann áður. Hingað til hefur Signý haft frumkvæðið af Hugrúnu, enda kynntist hún Melkorku fyrr í bústaðarferð fyrir rúmu ári (og þá var Hugrún í pössun í bænum). Í þetta skipti voru þær saman tvær og náðu eiginlega merkilega vel saman og að sama skapi voru þær ótrúlega líka í háttum, örkuðu báðar tvær beint af augum. Þær voru nokkurn spöl á undan okkur Jóni og Margréti þegar þær sýndu lítt greinilegum göngustíg áhuga sem lá undir stingandi greni (við hin þurftum að beygja okkur) og upp talsverða brekku. Rætur trjánna virkuðu eins og þrep eina fimmtíu metra þar til við komum okkur fyrir í lundi sem gnæfði yfir Heiðmörkinni fyrir neðan. Glæsilegur staður sem þær fundu stöllurnar Melkorka og Hugrún. Við vorum öll hæstánægð og kroppuðum í nesti á þessum kyrrláta og afskekkta stað og einsettum okkur að koma hingað aftur. Í tilefni af því var lundinum gefið nafn: Hugkorkulundur.

Engin ummæli: