sunnudagur, júlí 05, 2009
Pæling: Söngleikir fyrir börn?
Síðustu daga hefur Signý verið gagntekin af söngleiknum "Cats" eftir Andrew Lloyd Webber. Þetta stykki sló í gegn í Englandi á miðjum áttunda áratugnum og ég man eftir því sem einni af helstu leikhúsperlum Lundúna frá þeim tíma sem ég var þar árið 1988. Ég fór á söngleikinn og hreifst mjög á sínum tíma af tilburðum leikaranna, dönsunum, hreyfingunum og öllu litrófinu. Mann langaði eiginlega strax að fara í fimleika, eða eitthvað. Tónlistin hreif líka en þó ekki eins og sjónræni þátturinn og öll þessi smitandi gleði sem einkenndi sýninguna. En núna, sem sagt, er Signý komin á bragðið. Ég leyfði henni að sjá þetta á DVD á meðan hún var lasin. Síðan þá hefur hún spurt um "kisurnar" á hverjum degi. Fyrst spurði hún reyndar um "apana", sem er raun nær lagi því þetta eru jú manneskjur í loðfeldum og með skott. En með tímanum gerði hún sér betur og betur grein fyrir sögunni og áttar sig á því að þarna er verið að segja frá samfélagi katta og þeirra samskiptum. Hún heillast sérstaklega af dansatriðunum og hreyfir sig gjarnan í takt. Það vekur líka furðu mína hvað hún er búin að ná lögunum vel, eftir ekki nema fimm rennsli eða svo. Þess á milli sem hún hreyfir sig eða syngur horfir hún á með andakt og tjáir sig um líðan kattanna: "Enginn vill vera vinur hennar" eða "þetta er ljóti kisinn". Eitt atriðið vill hún hins vegar alltaf stökkva yfir, en þá birtist "draugakisi" með ægilegum hlátrasköllum. Þetta er náttúrulega frábær upplifun fyrir hana og ég er mjög feginn að hafa dottið inn á þetta. Í framhaldi velti ég því hins vegar fyrir mér hvort ekki séu margir aðrir söngleikir sem henta börnum á hennar aldri? Flestir söngleikja Webbers held ég að höfði síður til barna. En hvernig er "Ávaxtakarfan"? Ég man að hún hreif ekki fyrir svona ári síðan, en það má reyna aftur. Svo eru norsku leikritin "Dýrin í Hálsaskógi" og "Kardimommubærinn" nánast söngleikir. Gaman væri að heyra í hugmyndum, hér sem athugasemd eða í tölvupósti. Nú eða í eigin persónu :-)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Hæ við eigum slatta af "menningartengdu"efni fyrir börn...
Mín hafa að mestu vaxið uppúr ýmsu en gaman væri að deila með þeim.....
kv. BB og börn
Skrifa ummæli