þriðjudagur, nóvember 24, 2009

Þroskaferli: Þroskamat Hugrúnar

Í gær var gaman hjá Hugrúnu. Hún fór í tveggja og hálfs árs skoðun, sem er fyrst og fremst þroskamat. Hún naut sín og settist prúð og yfirveguð við lítið barnaborð og leysti þar þrautir. Hún minnti mig satt að segja á japanskt eða kínverskt barn sem sest fulkomnlega agað og bíður fyrirmæla. Ég, sem er vanur hegðunarröskun á háu stigi í mínu starfi, undaðist hvað hún virtist vera skólahæf nú þegar. Og þrautirnar leysti hún með bravúr og fékk einkunn vel yfir meðaltali. Hún byggði meðal annars turn úr tíu smágerðum, sléttum kubbum. Viðmið fyrir hennar aldur er víst átta en hún fór létt með að reisa turninn alla leið, úr öllum kubbunum. Á vissum tímapunkti hallaði hann pínulítið og þá gerði sú litla sér lítið fyrir og leiðrétti turninn vandlega og hélt svo áfram. Ótrúlega yfirveguð. Þetta var eins og spennuatriði úr bíómynd fyrir okkur foreldrana sem horfðum gaumgæfilega en þegjandi á. Fyndnasta atriðið snerist hins vegar um ritun. Hún var spurð að því hvaða hönd hún notaði til að teikna. Hugrún var hálf undandi yfir þessari spurningu en lyfti upp hægri höndinni skýrt og greinilega. Hjúkrunarfræðingurinn ítrekaði við þetta spurningu sína - fannst þetta eitthvað óljóst - og þá rétti Hugrún upp vinstri höndinni með vísifingurinn útréttan og benti á hina höndina.

Engin ummæli: