laugardagur, ágúst 18, 2012

Ferðalag: Óvissuferð með Togga - fyrsti hluti.

Í gær var ég óvenju þreyttur, nýkominn úr vel heppnaðri óvissuferð sem ég skipulagði með Kristni (bróður Vigdísar). Við vorum búnir að brjóta heilann og velta vöngum lengi án þess að hafa haft gott svigrúm til samráðs.  Þegar fókusinn var orðinn skarpur og öll plön endanlega samofinn í eina samfellu var lagt í "steggjun".  Það var í fyrradag, fimmtudag, sem við "steggjuðum" Togga í tilefni af brúðkaupi hans og Ásdísar (systur Vigdísar) undir lok mánaðarins.  Undirbúningurinn var vandmeðfarin því við vildum gera eitthvað sem var okkur öllum til ánægju.  Við Kristinn erum þar að auki ekki þannig hugsandi að við vildum gera Togga of vandræðalegan og sneiddum að mestu fram hjá vandræðalegum uppákomum.  Vorum sammála um að virða öll velsæmismörk.  Áherslan var því lögð á óvissuna og ögruðum Togga frekar með áhættu og spennu í stöðugri glímu við hið "óþekkta".

Dagurinn byrjaði hins vegar með smá vandræðagangi, svona til að gefa tóninn.  Við mættum alveg óvænt í vinnuna til hans eftir hádegismat.  Yfirmenn og samstarfsfólk vissi af þessu en Toggi kom alveg af fjöllum.  Við Kristinn mættum með furðuleg gleraugu þar sem augun okkar eru afmynduð með skringilegum myndum af annarlegu augnaráði og litum hálf geðveikislega út.  Toggi var bara í vinnugírnum, eitthvað að dunda sér við að sýna Ásdísi bíl, og var ekkert á því að fara með okkur í fyrstu.  Það var ekki fyrr en við skelltum á hann hárkollu að hann fór að átta sig á því hvert stefndi. Hann settu fús á sig kolluna og leit nákvæmlega út eins og Davíð Oddsson á borgarstjóraárunum.  Það var óvæntur bónus og öllum til skemmtunar.  Þegar hann var búinn að ganga frá síðustu erindum og kveðja starfsfólk, með hlátrasköllum þeirra, fór hann hálf ringlaður með okkur út í bíl, gamlan Volvo (árgerð 1990).  Bíllinn var honum að skapi og þegar við vorum búnir að skála með orkudrykk var lagt af stað í glampandi sólina.

Framhald seinna  (í kvöld eða á morgun)

Engin ummæli: