mánudagur, ágúst 06, 2012

Kvikmyndir: Dáleiðandi meistaraverk

Verslunarmannahelgin hefur verið ljúf eins og venjulega.  Hvað er betra en að spóka sig í mannlausri borg þegar þorri landsmanna hamast úti á landi við að elta mesta fjörið eða sterkustu sólina?  Flestir koma eflaust þreyttir til baka og jafnvel pirraðir eftir umferðarteppuna eftir helstu þjóðbrautum landsins.  Hér heima er hins vegar slíkur friður að það er engu líkara en sveitasælan hafi flúið landið og leitað inn í borgina.

Ég hefði getað kíkt á innipúkann, þar var nóg af áhugaverðum uppákomum, en lét það vera því ég hlakkaði svo mikið til að klára myndina sem ég var nýbyrjaður á: Once Upon a Time in America.  Þetta er mikið meistaraverk, bæði fyrir eyru og augu,  eftir meistara Sergio Leone (sem gerði sína ódauðlegu spagettívestra á miðjum sjöunda áratugnum).  Þessi saga er ólík vestrunum að því leyti að hún gerist í borgarumhverfi á tuttugustu öld, nánar tiltekið í New York frá kreppuárunum til 1968 og spannar lífshlaup svikahrappa og bruggara sem maka krókinn á bannárunum og þurfa að svífast einskis til að lifa af.  Myndin hefur mikla mannlega dýpt og fjallar að miklu leyti um tækifæri sem fara forgörðum og vináttu sem spillist.  Persónusköpun í myndinni og handritið eru bæði í hæsta gæðaflokki, enda eru Robert de Niro og James Woods í aðalhlutverkum.  Þetta er saga sem flakkar fram og til baka í tíma, sem er ekki svo óvenjulegt í dag, en á þeim tíma sem myndin kom út (1984) fann bandaríska kvikmyndaeftirlitið sá sig knúið til að raða söguköflunum í rétta tímaröð (klippa myndina upp á nýtt, sem sagt).  Myndin er heldur engin smásmíði, rúmlega 240 mínútur í óstyttri útgáfu (sem hefur reyndar enn aldrei komið út).  Eftirlitið miskunnarlausa í Bandaríkjunum skar myndina niður í rúma tvo tíma, en í Evrópu var hún sýnd sem þriggja og hálfs tíma mynd, og það er nokkurn veginn sú útgáfa sem ég horfði á í áföngum núna um helgina.

Það var reyndar mjög skemmtilegt að vera með svona stórvirki í spilaranum því ég er nýbúinn að breyta til í stofunni og færa til húsgögn þannig að sjónvarpsaðstaðan hefur batnað til muna.  Þvílíkur munaður að sitja í leiðslu yfir þessari mynd og vígja þannig "nýju stofuna".  Myndin er dáleiðandi meistaraverk.

Engin ummæli: