Hellinn fundum við á sínum stað. Leiðarendi er magnaður hellir. Hann er einn til tveir metrar á hæð og liggur sem göng neðanjarðar einhver staðar undir helluhrauninu milli Bláfjalla og Hafnarfjarðar. Göngin ná um það bil kílómetra og liggja í hring þannig að hægt er að ganga inn hellisopið á einum stað og koma út annars staðar. Við þremenningarnir vorum ögn tímabundnari en svo að við gætum grandskoðað hellinn en fórum þó nógu langt inn, gegnum klungur og ruðninga, til að missa algjörlega sjónar af dagsljósinu. Rigning undanfarinna daga hripaði niður sprungur í hellisloftinu. Þegar Kristinn stakk upp á því að við slökktum á lugtum og hlustuðum á kyrrðina upplifðum við magnaða stund. Að því loknu tendraði ég nokkur sprittkerti og fór yfir prógrammið með Togga.
Við vorum með bók sem innihélt 509 heilræði og hann fékk að nefna tölur af handahófi í daufum bjarmanum af kertaljósinu. Heilræðin skyldu höfð í huga það sem eftir var ferðarinnar sem eins konar verkefni handa Togga. Hann var hins vegar heppinn með verkefni og þurfti bara að: vera kurteis við gengilbeinur, vera óspar á hrós, muna eftir því að vera brosmildur og annað í þeim dúr. Við Kristinn sáum í hendi okkar að þetta væri hægt að gera á einu bretti á veitingahúsi seinna um daginn. Hann fékk reyndar líka nokkur ónýt heilræði í ljósi aðstæðna eins og "Vinkaðu börnum í skólabílum" en heilræðið "Mundu að hleypa bílum framúr ef þú þarft að nema staðar" átti eftir að vinda upp á sig.
Okkur vað brátt hrollkalt í hellinum og fikruðum okkur aftur í átt að opinu. Það var eins og að stíga úr flugvél á Spáni að koma aftur upp á yfirborðið. Hlýr rakamettaður loftmassinn lagðist utan í okkur og það var gríðarlega notalegt.
Aftur var skálað í pólsku gosi og haldið sem leið lá í átt að Nesjavöllum. Nesjavallaleiðin var svolítið ný upplifun fyrir mig. Ég hafði í mesta lagi ekið hana hálfa áður. Ég var ekki við stýrið og naut þess að fljóta með farþegamegin. Það sæmdi vel þeim bílaáhugamönnum sem ferðuðust með mér að bruna þessa beinu braut á eðalvagni. Mér varð næstum um og ó en sem betur fer setti bíllinn okkur takmörk. Á meðan var hlustað á "framandi" tónlist, sem framhald af framandleikanum í ávaxtaverkefninu. Hvað er meira framandi á svona stað en "dauðarokk"? Það er að minnsta kosti ekki tónlist sem margir leggja sig eftir að hlusta á að jafnaði og heyrist afar sjaldan í útvarpi. Kristinn er hins vegar áhugamaður um harða rokktónlist og miðlaði af þessu til okkar hinna sem kyrjuðum með af miklum móð meðan kerran brunaði sína leið. Svo kom að því einhvers staðar á leiðinni að við mættum hægfara bíl. Í hneykslunartón sagði ég gegnum bílrúðuna "Haltu dampi maður!" sem Kristinn var fljótur að yfirfæra á slangur: "Haltu dampi hvað það var gaman!" Toggi sveiflaði í sömu mund fram blótsyrði sem umsvifalaust varð að klassík í okkar eyrum: "Haltu á ketti!". Þetta tvennt var rumið og kyrjað á víxl á leið til Nesjavalla, þar sem Toggi vissi ekki hvað beið sín.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli