miðvikudagur, ágúst 08, 2012

Handbolti: Tapið gegn Ungverjum

Þá er ólympíuævintýri handboltalandsliðsins lokið.  Það er ekki laust við að maður sé vankaður af undarlegum tómleika svona rétt á eftir.  Við vorum öll búin að sjá fyrir okkur að liðið kæmist í fjögurra liða úrslit og að þeir myndu vinna til verðlauna, jafnvel ná gullinu.  Slíkar væntingar voru í þetta skiptið raunhæfar því önnur lið í keppninni virtust vera af svipuðum styrk og við.  Frakkarnir hafa verið áskrifandi að gullinu hingað til en núna voru mun árennilegri en áður.  Breiddin í okkar hópi var líka mun meiri en nokkru sinni fyrr.  Við áttum meira að segja nóg "inni", ef tekið er mið af þeim leikmönnum sem enn áttu eftir að blómstra eða voru einfaldlega lítið búnir að spreyta sig. Það lá einhvern veginn í augum uppi að við myndum ná langt með þetta lið.  Samsetning ferskleikans (Arons) og reynslunnar (Ólafs) var baneitruð auk þess sem aðrir reynsluboltar í liðinu voru í toppformi.  Hvernig gat þetta eiginlega gerst?

Vantaði einhverja hvatningu?  Þegar liðinu hefur verið stillt upp við vegg hefur það alltaf staðið sig best.  Þegar þeir hafa "klúðrað" auðveldum leikjum og "orðið" að vinna lið á borð við Frakka til að komast áfram, þá hafa þeir magnað upp einhverja geðveiki og slátrað andstæðingunum.  Þá skiptir engu hverjum þeir mæta. Kannski hefðu þeir átt að sjá fyrir sér fyrirsagnir morgundagsins á borð við "Ólympíudraumurinn úti", fyrir leik, til þess að gera sér grein fyrir því að Unverjarnir væru komnir til að stela af þeim tækifærinu.  Búa til einhverja grimmd.  En sú einbeiting virtist vera fyrst og fremst í hinu liðinu, því miður.

Það er líka synd að fyrirkomulag keppninnar skuli leiða fjögur efstu liðin í átta liða útsláttarkeppni.  Persónulega er ég mun hrifnari af hinu fyrirkomulaginu, þegar tvö efstu liðin mætast í kross í undanúrslitum.  Þá skiptir meira máli að standa sig mótið á enda.  Með þessu fyrirkomulagi hefði vel verið hægt að slappa af allt mótið og leyfa sér að tapa móti Svíum, Frökkum og .... tja, ég ætla ekki að segja Bretum, en Túnis, þess vegna.  Með fjórða sætinu hefðum við líklega náð meiri einbeitingu. Ég veit ekki.  Einn stakur leikur getur svo auðveldlega þróast út í "happdrætti" (eins og Guðmundur þjálfari tók til orða).  Það var nánast hending hvoru megin sigurinn lenti.  Eðlilegra hefði verið að við fengjum að gera atlögu að bronsinu eftir frammistöðuna í mótinu, en því er ekki að skipta, eins og mótinu hefur verið stillt upp.

Á maður þá að halda með Ungverjum?  Þeir stóðu sig frábærlega gegn okkur og það væri viss huggun harmi gegn ef þeir næðu verðlaunum. Að minnsta kosti hef ég ekki lyst á að halda með hinum liðunum sem komin eru áfram.

Sjá öll úrslit hér.



Engin ummæli: