Elton John hefur verið mikið spilaður á okkar heimili undanfarna viku. Ástæðan er fyrst og fremst teiknimynd sem stelpurnar eignuðust um daginn, Gnomeo and Juliet. Þetta er ágæt teiknimynd að mörgu leyti en ekkert sérstaklega merkileg nema fyrir það helst að innihalda nær eingöngu gömul klassísk lög eftir Elton John. Í stað þess að frumsemja fyrir myndina gaf þessi skrautlegi tónlistarmaður leyfi fyrir því að gömlu lögin hans yrðu aðlöguð myndinni. Útkoman er sérkennileg í fyrstu en virkar vel þegar maður venst henni. Þarna má heyra smelli eins og Your Song og Rocket Man en þau lög sem njóta sín best í myndinni (og stelpunum finnst skemmtilegust) eru hressilegu stuðlögin hans: Crocodile Rock, Don´t Go Breaking My Heart og Saturday Night´s All Right For Fightin´. Í hvert sinn sem við förum í bíltúr þessa dagana biðja þær til dæmis um "kappaksturslagið" og þá vita allir hvað átt er við.
Ég hef lengi átt tvöfaldan safndisk með Elton John í tölvunni og einstaka sinnum sett hann í ipodinn en einhvern veginn hef ég aldrei nennt að hlusta á hann. Ég er ekki alltaf í stuði fyrir hreina og beina popptónlist og vel yfirleitt eitthvað frumlegra, torræðara eða dularfyllra. Hins vegar nýt ég þess til hins ýtrasta þessa dagana að uppgötva með stelpunum (enduruppgötva, í mínu tilfelli) tónlist Elton Johns og geri svo í því að læða nokkrum lögum að inn á milli sem leynast á safnplötunni. Mikið eru lög eins og Song for a Guy smekkleg. Það er nánast alveg instrumental og finnst mér vera á par við lagasmíðar á borð við Chariots of Fire og slíka tímalausa tónlist. Eða poppsmellurinn Nikita, sem er uppfullt af söknuði eftir því sem ekki er hægt að fá. Þetta lag minnir mig alltaf á dvöl mína í Rússlandi hér um árið (1999), enda heyrðist manni rússar hafa sérstakt dálæti á tónlist Elton John. Hann var stöðugt í spilun þar eystra, bæði þetta lag og aðrar melódískar perlur, og það gerði sitt til að ylja manni þreyttum ferðamanninum. Mörg laga Elton Johns vekja fyrir vikið upp rússnesk hughrif hjá mér og mér þykir svolítið vænt um það.
Svo er því ekki að neita að framan af ferlinum var Elton John mjög frumlegur og djarfur lagasmiður. Lögin hans áttu það til að vera uppfull af sérkennilegheitum (sbr. Bennie and the Jets). Sum lög hef ég svo tekið til endurskoðunar, lög eins og Candle in the Wind, sem ég hef ekki hlustað á í meira en fimmtán ár. Ég varð skyndilega mjög þreyttur á laginu á sínum tíma eftir að Elton flutti það í minningarathöfn Díönu prinsessu. Þá upplifði ég það sem yfirdrifna vellu. Lagið er samt frábært og ég nýt þess að hlusta á það með ferskum eyrum á ný eftir svona langt hlé. Eins er það með meistaraverkið hans, Goodbye Yellow Brick Road, sem var talsvert spilað á sínum tíma. Mér fannst það alltaf mjög flott en einhvern veginn náði það enn betur til mín tilfinningalega núna. Þetta er eitt af þessum fáu lögum sem ná því að vera metnaðarfull, frumleg og sérkennileg en samt innileg og ógurlega fögur.
Fyrir þremur dögum síðan, á sama tíma og gleðigangan þrammaði niðri í bæ, var ég staddur einhvers staðar í úthverfi með þennan frábæra tónlistarmann í spilaranum og fannst það einhvern veginn við hæfi að enduruppgötva þennan glysgjarna tónlistarmann á þessum degi. Hann er einn frægasti glamúrhommi samtímans og hefur náð merkilega vel að höfða til mismunandi kynslóða gegnum tíðina. Af seinni tíma afrekum hans má nefna tónlistina við Lion King sem við í fjölskyldunni höfum hlustað á óspart í allt sumar og oftar en ekki sett í botn.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli