Óvissuferðin var sannkölluð óvissuferð. Við Kristinn vorum aðeins með lauslegt plan og spunnum ferðina að hluta til jafn óðum. Grunnhugmyndin var hins vegar nokkuð skýr: Ætlunin var að reyna á Togga með ýmsum hætti og sjá hvort hann sé haldinn innilokunarkennd, geti treyst öðrum blindandi, hvort hann sé nokkuð smeykur við hið óþekkta og hvort hann geti yfirvegið eigin lofthræðslu. Sem meðlæti alla leiðina buðum við upp á framandi veitingar af ýmsu tagi sem fengust í skemmtilegri pólskri búð í Breiðholtinu (Pólskt gos og nammi er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana og svei mér ef það á ekki upp á pallborðið hjá þeim Togga og Kristni eftir ferðina).
Ferðin hófst fyrir alvöru með fyrsta verkefni um leið og við náðum útjaðri borgarinnar. Þá fékk Toggi framandi ávexti í hendur, sex talsins, hver öðrum skrýtnari, og eyðublað þar sem hann þurfti að gera grein fyrir bragði og framandleika hvers og eins auk þess að gefa frá sér ítarlega lýsingu eðli bragðsins. Þetta verkefni kláraði Toggi með miklum sóma og varpaði fram ýmsum skáldlegum lýsingum ("eins og hlaupkenndur appelsínubörkur" var ein). Sigurvegari ávaxtasmakksins reyndist vera granatepli, sem var eini ávöxturinn sem við vorum allir hrifnir af (og Toggi lýsti með "berjabragði, sætu en þó svolítið súru").
Við enduðum fyrsta hluta bíltúrsins í Bláfjöllum, alveg óvart, því við Kristinn vorum ekki með mjög nákvæma leiðarlýsingu á fyrsta áfanga ferðarinnar. Skemmtilegur og súrrealískur staður til að staldra við á að sumarlagi, eins og draugaborg eða eyðibýli, mannvistarleifar sem vakna til lífsins öðru hvoru. Þar var stoppið nýtt til að stilla sér upp. Kristinn dró fram yfirvaraskegg (sem við kölluðum "the stash") og skellti á Togga. Hann líktist helst ábúðarmiklum rússneskum kaupsýslumanni sem ígrundaði troðnar brekkurnar bak við sig. Þá fórum við aftur af stað að afleggjaranum í átt að Hafnarfirði, sem okkur hafði sést yfir. Hann átti að leiða okkur að næsta áfangastað: Hellinum Leiðarenda.
Við Kristinn studdumst við mjög ónákvæma leiðarlýsingu og samkvæmt henni átti slóðinn að hellinum að vera mjög greinilegur norðan megin við veginn. Merking á korti gat skeikað nokkur hundruð metrum. Við stoppuðum því á vitlausum stað og gengum mjög "greinilegan" slóða út í hraunbreiðuna, út í óvissuna. Toggi hafði ekki hugmynd um það hvað við ætluðum að gera en setti þó á sig hjálm (eins og við) og gekk með bundið fyrir augu. Það var eiginlega aðdáunarvert hvað hann var þolinmóður og fótviss í senn og gekk án sýnilegs tilgangs í 15-20 mínútur áður en við Kristinn áttuðum okkur á því að slóðinn endaði ofanjarðar og dó út. Toggi fékk að opna augun úti á berangri og horfði í kringum sig. Ég skokkaði um í leið að mögulegum hliðarstígum og leyndum hellum en allt kom fyrir ekki. En við komumst að minnsta kosti út í óvissuna og komumst á leiðarenda, Toggi öðrum fremur, enda upplifði hann miklu torfærari og lengri göngu en við hinir.
Við skáluðum sem oft fyrr í pólsku gosi þegar við komum að bílnum og ákváðum að freista þess að aka í tíu mínútur lengur til að finna réttan stíg. Og hann blasti við, svo sannarlega, með áberandi vörðu og grárri möl sem gerði gönguleiðina mjög greinilega.
Meira seinna
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli