þriðjudagur, ágúst 28, 2012

Ferðalag: Óvissuferð með Togga, fjórði hluti

Það var sannarlega gaman að aka beina leið eftir hitaveiturörinu í átt að Nesjavöllum með þrumandi rokktónlist í bakgrunni.  Adrenalínið fór því sjálfkrafa af stað á leiðinni í Adrenalíngarðinn á Nesjavöllum, sem var næsti áfangastaður.  Þar fengum við útrás fyrir spanið og eftirvæntinguna.  Toggi vissi auðvitað ekkert hvað tæki við á þessum stað og virtist hæstánægður með lendinguna, enda mikið fyrir hraðskreið farartæki, spennu og "adrenalín". Garðurinn er vel hannaður og öllum öryggiskröfum fylgt út í æsar.  Þetta er kaðlavirki með alls kyns "brúm" á milli stólpa (sem ná 10-15 metra upp).  Þrautirnar liggja á þremur hæðum og eru misjafnlega erfiðar en í öllum tilvikum er maður festur í tvöfaldri öryggislínu.  Þegar skipt er um þraut þarf að leysa sig og festa aftur en lögð er áhersla á það að maður festi aukalínu á sig áður en hinni fyrri er sleppt.

Þarna döngluðum við á víbrandi köðlum og tipluðum í 12-15 metra hæð eftir þröngum einstigum.  Sums staðar var mælt með því að maður styðji sig við öryggislínuna sína, sem hangir rétt fyrir ofan, til að finna jafnvægið betur.  Hins vegar er það meira krefjandi að láta sem hún sé ekki þarna og reyna eftir bestu getu að fikra sig eftir mjög svo ótryggri brú í allt að því lífshættulegri hæð (vitandi af línunni góðu, samt sem áður).  Að endingu var boðið upp á að láta sig gossa og renna sér eftir kaðli niður yfir læk sem rennur fram hjá þrautabrautinni.  Til að pumpa enn meira adrenalíni gegnum æðakerfið var svo slúttað með þar til gerðri risarólu sem sveiflar manni nánast úr frjálsu 10 metra falli upp í sömu hæð og aftur til baka.  Sú tilfinning var geggjuð.

Sæmilega örir og kampakátir fórum við til baka sem leið lá Nesjavallaleiðina og mættum þá sama hægfara bíl og hafði verið á vegi okkar fyrr um daginn.  Er við höfðum tekið fram úr honum mundi Toggi skyndilega eftir einu verkefninu: "Mundu að hleypa bílum fram úr ef þú þarft að hægja á þér".  Um leið og Toggi hafði sleppt orðinu fann Kristinn álitlegan stað til að stöðva bifreiðina, og framúr silaðist fjölskyldubifreiðin, eflaust sátt og sæl eftir vel heppnaðan berjaleiðangur og jafnframt undrandi yfir þessum sveiflukennda akstri okkar.  Þetta var hins vegar skammgóður vermir því stuttu eftir að við vorum lagðir af stað lentum við aftur á eftir sama bílnum.  Þegar Kristinn tók framúr á ný hvatti hann Togga til að setja á sig yfirvaraskeggið: "Sýndu þeim stashið maður!".  Þetta var nú meira hugsað sem ögrun fyrir Togga því hann er svo ferlega fyndinn með þetta skegg og hann tók áskoruninni hikstalaust. En því miður var sem enginn tæki eftir Togga með sitt prýðilega skegg.  Þá varð Kristinn nokkuð svekktur og fann sig knúinn til að leggja bílnum á ný og gera þetta almennilega.  Á þeim tímapunkti áttaði Toggi sig hins vegar á því að gamanið væri kannski öllu grárra hjá greyið fólkinu í fjölskyldubílnum og við ákváðum að láta kyrrt liggja enda virtist okkur þau aka óvenju hratt framúr í þetta skiptið.

Ferðin gekk nokkuð tíðindalaust sem eftir var að því undanskildu að ég vildi skipta um föt áður en við færum út að borða og datt í hug að renna við í Nauthólsvíkinni.  Þar eru skiptiklefar og ég nýtti tækifærið til að vaða út í saltan sjóinn.  Þeir Toggi og Kristinn létu sér nægja að fylgjast með, - sundsprettnum það er að segja.  Eftir það var ég sjálfur mjög ferskur og tilbúinn að snæða öndvegis pizzu.  Á Pisa var rætt og skrafað út frá ýmsum heilræðum sem Toggi hafði valið sér í hellinum og síðustu verkefnin lögð fyrir í leiðinni. Hann átti að vera sérlega kurteis við gengilbeinur og vera duglegur að hrósa, sem hann og gerði svo sannfærandi að ein daman fór næstum hjá sér. Annars bragðaðist maturinn frábærlega og við meira en sáttir við daginn, orðnir lúnir og saddir í senn.  Á planinu hjá Togga var að lokum skálað í ógeðsdrykk: Rauðrófusafa.  Hann var reyndar prýðilegur á bragðið að mínu mati (ég veit að þeir eru mér ekki sammála) en lyktin var eins og úr fjósi.   

Engin ummæli: