Um síðustu helgi gerðum við vel við okkur og skelltum okkur í bústað. Jón Már og fjölskylda höfðu reyndar frumkvæði að því og hvöttu okkur til að skella okkur í Melkorkuhús. Það var kominn tími til enda nokkuð langt liðið síðan síðast (hátt í tvö ár). Við tökum örlætinu að sjálfsögðu fagnandi. Það er mikill munaður að geta skotist fyrirhafnarlítið út fyrir borgarmörkin og notið þess að vera út af fyrir sig. Hins vegar var ég ferlega óheppinn. Einmitt þegar við ætluðum að njóta kyrrðarinnar í Þingvallasveit og nágrenni í friði og spekt varð ég hundslappur. Fór sem hálfur maður yfir heiði og uppgötvaði hinum megin, þegar á áfangastað var komið, að ég var kominn með háan hita. Það sem var enn kaldhæðnislegra var að Vigdís var fjarri góðu gamni í þetta skiptið - aldrei þessu vant (ég fór einn með Signýju og Hugrúnu) þannig að ég þurfti samt sem áður að standa mína plikt. Með stöðugan haustverk og hita- og kuldagusur til skiptis reyndist fyrsta nóttin mjög óþægileg. Maður strögglaði við að koma til móts við börnin en hélt sér þar fyrir utan bara til hlés, eftir því sem það var hægt. Bækurnar sem ég ætlaði að njóta í rólegheitunum (og keypti sérstaklega í tilefni af dvölinni) sátu ósnertar í bakpokanum í heila tvo sólarhringa. Það var ekki fyrr en þriðja daginn, sunnudaginn var, sem ég var farinn að vera nokkuð góður, þökk sé verkjatöflum og hitastillandi. Þá var stutt í brottför. Sunnudagskvöldið var hins vegar ákaflega notalegt og dregnar voru upp eðalbækur að hætti Þorsteins :-)
Þrátt fyrir slappleika og hita var það vel þess virði að skella sér austur. Við gerðum margt skemmtilegt. Við hittum mömmu, pabba, Beggu og börn, sem voru í árvissri óvissuferð í sveitinni og kíktum með þeim á Geysissvæðið. Þau komu auðvitað færandi hendi, vitandi af ástandi mínu, með lyf og hlý föt og annað í þeim dúr. Það var svo sannarlega lán að þau skyldu vera á ferðinni. Svo var dvölin nýtt til að skoða næsta nágrenni. Við höfðum til að mynda aldrei áður gefið okkur tíma til að skoða Kerið. Hugrún kunni ágætlega við "eldfjallið" og settist strax á ákjósanlegan stað í lótusstellingu. Signý hélt sig hins vegar fjarri barminum. Ég þurfti að sannfæra hana um að þetta væri öruggur staður áður en húnn tyllti sér varfærnislega við hlið systur sinnar. En svo áttum við annað "heimili að heiman", ef svo má segja. Við vissum af Ásdísi og Togga í nágrenni við Laugarvatn, þar sem fjölskylda Togga á land og hefur ræktað skjólsælan reit. Jörðin er við Apavatn og þar er algjör hitapottur á sólríkum dögum. Þar gátu stelpurnar unað sér í ærslafullum leik við Almar frænda á meðan ég lá á dýnu, orkulítill, og naut þess að vera utandyra við stofuhita. Í venjulegu veðri hefði kannski slegið að manni við að vera svona mikið á ferðinni en eins og lofthitinn hefur verið að undanförnu þá var tiltölulega lítið mál að ferðast lasinn og hanga meira eða minna utandyra. Bara notalegt.
2 ummæli:
Þú varst nú óttalega tuskulegur greyið.
Gott að þér er batnað .Gaman að hitta ykkur!!!!
KNÚS Á YKKUR ÖLL
Begga
Auðvitað var hann tuskulegur. Hann mætti ekki á kvöldsamkomu hjá Hvítu valdi í fyrradag.
Kveðja
Friðbjörn Orri
Skrifa ummæli