mánudagur, maí 28, 2012
Daglegt líf: Blíðviðrið
Ótrúleg veðurblíðan sem hefur leikið okkur síðan fyrir sumardaginn fyrsta. Síðan þá hafa bara komið skýjaðir dagar í tvígang, tvo daga í röð í bæði skiptin. Og það er bara betra því smá rigning er nauðsynlegt mótvægi við sólina, svo maður þurfi ekki að standa í ströngu við að vökva garðinn. Úti er búið að vera nánast heiðskýrt upp á hvern einasta daga, vikum saman, en það tekur hins vegar loftið tíma að hitna. Það er enn pínu svalt úti - frískandi en fallegt. Geggjað gluggaveður og bara fínt peysuveður, prýðilegt til að hreyfa sig í og ganga á fjöll og þar fram eftir götunum. En þeir kvarta margir enn yfir veðrinu þrátt fyrir allt. Til dæmis um daginn þá fór ég í sund með pabba. Við flutum um Breiðholtslaugina eins og rekaviður og horfðum í baksundi upp á skýjatjásurnar sem teygðu sig inn á bláa himnabreiðuna. Ekkert ógnaði blíðviðrinu og hvergi gat ég hugsað mér betri stað en láta mig marra í hálfu kafi í sundlauginni og lesa út úr skýjunum. Svo röltum við í heita pottinn undir það síðasta og það fyrsta sem ég heyrði var að sjálfsögðu: "Það mætti nú vera hærri lofthitinn!"
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli