mánudagur, júní 11, 2012

Tónleikar: Stórkostlegur Costello

Ég hef ekki skrifað mikið undanfarna daga en nú get ég ekki orða minna bundist. Ég var á svo mögunuðum tónleikum með Elvis Costello. Ég vissi að hann gæti verið magnaður einn síns liðs en þorði ekki vonast eftir svona ótrúlegri frammistöðu. Hann spilað svo sannarlega fyrir allan peninginn. Hann tók áhorfendur út í djúpu laugina og skautaði fram hjá þekktustu lögunum fimlega. Eftir eins og hálfs tíma spilamennsku var hann bara búinn að spila um tvö til þrjú þekkt lög og aðeins nokkur lög til viðbótar sem ég kannaðist við (og kann ég samt yfir tuttugu plötur utan að). En í uppklappi fór að bera meira á þekktari lögum. Hann var líklega klappaður upp fjórum sinnum og spilaði að minnsta kosti í tuttugu mínútur í hvert skipti. Þetta voru allt í allt tæplega þriggja tíma tónleikar - án hlés! Og kallinn að verða sextugur! Hann byrjaði að svitna strax í öðru lagi, í jakkafötum og með hatt, en sló ekki slöku við eitt andartak, endurvann gömul lög á mjög skapandi hátt, náði ótrúlega miklu út úr einum gítar og fór þess á milli út um víðan völl, skipti um ham aftur og aftur og blandaði saman stílum og stefnum. Stórkostlegur listamaður! Aðdáun mín á honum heldur bara áfram að vaxa. Ég er gáttaður.

Engin ummæli: