miðvikudagur, júní 27, 2012

Leikrænir rokktónleikar

Það er skammt stórtónkeika á milli. Ég er nýbúinn að mæra Costello og verð að eyða nokkrum orðum í Ian Anderson og félaga í Jethro Tull. Þeir flutt hið kynngimagnaða meistaraverk "Thick as a Brick" í heild sinni rétt fyrir helgi og bættu svo um betur eftir hlé og flutt nýsamið framhaldsverk, sem fáir í salnum höfðu heyrt. Það reyndi á en var vel þess virði. Thick as a Brick er svokallað tónverkarokk, sem einkennist af löngum kaflaskiptum lagasmíðum sem margar hverjar jafnast á við sinfóníur að lengd. Við Villi fórum á tónleikana saman og vorum staddir ofarlega í Hörpunni og nutum ekki góðs af augnsambandi við flytjendur, en hljómburður var flottur samt sem áður. Söngvari sveitarinnar er orðinn nokkuð roskinn og raddlaus og það hefði verið beinlínis pínlegt að hlusta á hann kreista upp úr sér nótur í áttina að því sem hann söng á árum áður en sem betur fer notaðist hann við sérlegan aðstoðarmann úr leikarastéttinni, ungan Breta (um þrítugt) sem gerir út á það að leikflytja hin ýmsu rokktónverk (hefur til dæmis tekið þátt í uppfærslu Quadrophenia eftir the Who). Hann var mjög ljóðrænn og öruggur í flutningi og var ótrúlega flottur í hreyfingum, eins og nýstiginn upp úr Shakespeare leikriti, með svipmikla nærveru og náði að líkja eftir Anderson sjálfum bæði í sviðsframkomu og raddblæ. Saman voru þeir furðu góðir og í bland við alls kyns innskot í tónverkið, margmiðlunartækni og ýmsa uppsetta en skemmtilega lummulega brandara (eins og þegar "gemsinn" hans Ian Anderson hringdi þegar síst skyldi, rétt á undan einum helsta hápunkti verksins, og öll hljómsveitin þagnaði á meðan hann afsakaði sig gagnvart viðmælandanum) náði sveitin og hópurinn allur uppi á sviði að matreiða verkið eftirminnilega og koma á óvart með ýmsum hætti. Flottir tónleikar og gaman að fá í hendur framhaldsverkið með ítarlegri bók, sem við Villi keyptum að þeim loknum. Maður á eftir að grúska svolítið í því frameftir árinu, geri ég ráð fyrir.

Engin ummæli: