fimmtudagur, júlí 05, 2012

Signý: Þrúgandi vanlíðan af völdum hálskirtla

Ég sé að fátt var um færslur í síðasta mánuði. Það má skýrast með ýmsu móti. Meðal annars var ég sjálfur svo upptekinn við að horfa á fótboltann að lítill frítimi gafst þar fyrir utan. Svo komu veikindi upp á heimilinu af ýmsu tagi, bæði hjá Vigdísi (án þess að ég fari út í það hér) og Signýju. Signýju fór að líða illa þegar leið á vorið. Hún gerðist kvíðin við vissar aðstæður og vildi alls ekki fara inni í skólabygginguna á allra heitustu og sólríkustu vordögunum. Henni fannst skólinn þrúgandi og upplifði mjög sterka köfnunartilfinningu. Í ljós kom að hún var með mjög bólgna hálskirtla sem stuðluðu mjög að þessari tilfinningu. Hún hefur verið matgrönn undanfarnar vikur og bæði viðkvæm og grátgjörn í leiðinni.

Við fórum til sérfræðings með hana í mánuðinum sem leið og lýstum bæði líkamlegri líðan hennar og þeirri þráhyggjukenndu flóttatilhneigingu sem við höfum orðið vör við.  Hegðunarmynstrið tengist sterklega "köfnun" því hún vill alltaf hafa opinn glugga alls staðar þar sem hún kom, á erfitt með að kyngja, vill ekki fara með höfuð í kaf í sundi, fríkar út ef hún er hulin teppi og vill alls ekki að aðrir en hún smeygi bol eða peysu yfir höfuðið á henni.  Hún á meira að segja erfitt með að vera ein inni í sínu eigin herbergi jafnvel þó hún viti af öðrum fjölskyldumeðlimum hinum megin við vegginn.  Þetta hefur truflað hana félagslega og valdið henni óþarfa kvíða að mörgu leyti.  Hún var til dæmis hrædd við að fara í strætó eftir að hafa orðið bílveik í rútuferð (á sólríkum degi) og óttaðist stöðugt að "kafna". Alls staðar þar sem hún kom í heimsókn byrjaði hún á að tryggja sér að hafa aðgang að opnum glugga. Hún á erfitt með að tyggja og vill stundum spýta matnum út úr sér. Um daginn var henni boðið í heimsókn til vinkonu sinnar en hringdi svo hálftíma síðar hágrátandi af því vinkona hennar skammaði hana fyrir að þurfa að þurfa að skyrpa matnum sem þær fengu. Þetta hefur þróast með tímanum upp í einhvers konar félagsfælni því hún óttast að mæta ekki skilningi á líðan sinni þar sem hún er sem gestur hverju sinni. Hún vildi til að mynda fara með mér heim úr afmæli hjá sameiginlegri vinkonu þeirra Hugrúnar af því "mamma hennar talar ekki íslensku". Það var nóg til að hún varð óörugg (Hugrún var hins vegar sátt allan tímann, lét þetta ekki trufla sig, og kláraði veisluna eins og vera ber.) Í frístundaheimilinu sem Signý sækir þessa dagana hefur oft borið á aðskilnaðarkvíða hjá henni og hún miklar fyrir sér verkefni dagsins (sundferð, húsdýragarðinn og annað í þeim dúr).

Lækirinn samþykkti út frá samtali við okkur Vigdísi, samfara hálsskoðun, að panta tíma fyrir hana í hálskirtlatöku seinni partinn í ágúst. Hann þurfti að hugsa sig um því þetta er aldrei gert að óþörfu. Til þess þarf að uppfylla tvö af þremur skilyrðum:

a) Kirtlarnir trufla næringarinntöku
b) Valda kæfisvefni
c) raska hegðun í daglegu lífi

Við getum hæglega skrifað undir a) og c) og stundum truflar hálsinn hana í svefni líka. Röskunin er orðin umtalsverð og krakkarnir eru jafnvel farnir að sniðganga hana í frístundaheimilinu þegar henni líður hvað verst (og tekur grátköst). Við óttumst að frekari þráhyggja og fælni kunni að myndast út frá þessari vanlíðan ef ekki verður gripi inn í fljótlega. Hún þarf að vera spræk og tilbúin í skólann næsta vetur.

Engin ummæli: