föstudagur, júlí 13, 2012

Bækur: Bandaríkjastúdía

Ég hef verið að fræðast heilmikið um Bandaríkin að undanförnu.  Þetta er eitt að mínum áráttukenndu áhugamálum sem koma upp öðru hvoru.  Síðasta vetur var það stjörnuhiminninn (sjá Yfirlit yfir 2011), núna eru það Bandaríkin.  Þetta áhugamál hófst, eins og stjörnuhiminninn, með því að ég keypti bók í Bandaríkjunum síðasta sumar  (Fifty States: All You Need to Know) .  Hún fjallar skipulega um fylki Bandaríkjanna og ber þau markvisst saman í nokkuð ítarlegum texta sem er þó ekki yfirgripsmeiri en svo að maður les sig til um hvert fylki á svona kortéri.  Það er gott að grípa í þessa bók á milli verkefna.  Nýlega bætti ég öðrum sambærilegum bókum í safnið mitt.  Önnur þeirra er svona "coffe-table" bók, þ.e.a.s. stór og myndræn bók (The USA book) sem auðvelt er að detta inn í.  Hún er verulega safarík, með hnitmiðaðan en stuttan texta og leggur áherslu á grípandi ljósmyndir og eftirminnilega uppsetningu. Að lokum keypti ég mér eina um daginn sem fókuserar á nokkur vel valin svæði innan marka Norður-Ameríku og spannar því Kanada og Mexíkó líka (The Traveller´s Atlas: North America).  Í henni get ég lesið mig nánar til um ýmsa þjóðgarða og áhugaverða afkima (sem ekki koma fram í hinum bókunum).  Þetta er bókin sem ég keypti sérstaklega fyrir bústaðaferðina og þurfti að dúsa í bakpokanum mínum lengst af.  En hún rataði upp á borðið um síðir og reyndist afbragðslesning.

Það er stórhættulegt að byrja á svona nýju áhugasviði.  Núna langar mig að lesa mig sérstaklega um frumbyggja Ameríku, renna yfir sögu forsetanna, gleyma mér í ævintýralegum frásögnum af könnun nýja heimsins og sökkva mér ofan í einstök svæði, fjallgarða og stórfljót.  Grúsk er einhvers konar fíkn, en ólíkt efniskenndri fíkn þá hefur þetta þveröfug áhrif á heilann: Sá sem haldinn er fíkninni er líklegur til að mynda nýja tengingar í heilanum eftir því sem fíknin vex.

Engin ummæli: