fimmtudagur, júlí 05, 2012

Orðapæling: Kirtill breytir um nafn

Signý virðist eitthvað vera að braggast þessa dagana.  Hún er stundum kvíðin við vissar aðstæður en er farin að borða betur.  Hún kvíðir auðvitað pínulítið fyrir aðgerðinni en þær mæðgur hafa spjallað svolítið um hana og hún vill vera viss um að við séum hjá henni allan tímann og bíðum eftir að hún vakni.

Núna í gær var hún hins vegar hin hressasta og var úti að leika sér með systur sinni.  Þá var hringt í mig og Signý fékk að spjalla um stund.  Þá heyrði ég hana segja þegar hún kynnti sig: "Nei, ég er ekki hoppandi og skoppandi Signý.  Ég er Signý Sól - með of stóran kyrkil".

Tvö orð krefjast útskýringar.  Annars vegarað Signý er farin að kalla sig Signý Sól. Það er hennar eigin sjálfsprottna nafngift sem hún hefur þróað með sér í vetur.  Okkur hinum finnst það passa ágætlega við hana.  Það hefur alltaf verið bjart yfir henni sem persónu.  Hún er að kynnast sjálfri sér sem meiri einstaklingi en áður eftir að hún byrjaði í Grandaskóla og þetta er eflaust hluti af sjálfstæðisyfirlýsingu hennar.  Okkur finnst hún vera að finna sig mjög skemmtileg sem "karakter" og var farin að vera öruggari með sig eftir því sem leið á veturinn (þar til í vor, eins og ég minntist á í síðustu færslu).

En svo er það hitt orðið sem varð kveikjan að því að ég setti inn þessa færslu: Kyrkill!. Það er mjög lógískt að hún skuli misskilja orðið með þessum hætti.  Hálskirtillinn er einmitt það sem hefur verið að valda henni andþrengslum að undanförnu. Hvað getur hann heitið annað en "kyrkill"?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ha ???

Auðvitað er þetta "kyrkill" þegar manni finnst verið að kyrkja sig.
Ætti eiginlega að vera læknisfræðilega heitið
líka og mun gáfulegra!!!
Skýrir sig sjálft!

Börnin eru svo klár!!!

Þetta er eins og með
" gangslétt" og "karplöggur"
"blýflugur " og fl.

Hennar túlkun á því hvernig henni líður...

Magnaðar stelpur!!!
Fá báðar A+++ frá Beggu frænku