fimmtudagur, júlí 05, 2012

Um gildi þess að geta skammað

Að endingu verð ég að setja eina færslu inn um Hugrúnu, svona til að gæta jafnræðis, en ég má líka til því hún tjáði sig svo skemmtileg um daginn.  Þá kom hún upp að mér heima og faðmaði fótinn mjög innilega og sagði: "Það er gott að eiga pabba!".  Mér fannst þetta auðvitað ósköp hlýlegt og sagði eitthvað fallegt til baka og faðmaði hana.  Þá spurði hún: "Er gaman að vera fullorðinn?".  Ég hugsaði mig um andartak og sagði svo diplómatískt: "Já, stundum".  Vissi eiginlega ekki hvernig ég átti að svara þessu.  Þá sagði hún til baka: "Já, maður getur skammað og svoleiðis!"


Þær eru mjög ólíkar systurnar að mörgu leyti.  Þarna kristallast einn munurinn: Hugrún vill verða stór sem fyrst en Signý saknar þess vera "lítil" (hún hefur stundum horft með söknuði á myndir af sjálfri sér eins árs og verður svolítið meyr).  Til dæmis hefur Hugrún oft óskað eftir því að fara í skólann til Signýjar og finnst leikskólaverkefnin nógu verðug en Signý saknar öryggisins sem hún upplifði í leikskóla. Líklega er það mjög eðlilegt að finnast grasið grænna hinum megin, sérstaklega þegar systir manns er þar.  En maður verður samt var við ríkari tilhneigingu hjá Hugrúnu til að sækjast eftir sjálfstæði.  Hún vill langoftast gera hlutina sjálf (ef hún er ekki þeim mun þreyttari).  Ef manni verður á að aðstoða hana á hún það til að pirrast, aflaga það sem maður gerði og byrja upp á nýtt.  Hún fer stundum út úr bílnum og inn aftur, bara af því maður lyfti henni í hugsunarleysi. Svo finnst henni greinilega tilhlökkunarefni að vera fullorðin, vera við stjórnvölinn og "geta skammað og svoleiðis" :-)

Engin ummæli: