mánudagur, júlí 23, 2012

Tónlist: Goðsagnakennd plata enduruppgötvuð

Ég hlustaði í gærkvöldi á frábæra plötu og hékk yfir henni frameftir kvöldi: The La´s: The La´s

Þessa plötu er ég búinn að halda upp á síðan hún kom út 1990.  Þá keypti ég mér hana á vínyl (sem ég á enn). Tæplega tíu árum seinna eignaðist ég plötuna á diski og núna, um síðustu helgi, eignaðist ég hana einu sinni enn, aftur á diski.  Ástæðan er sú að ég fann Deluxe útgáfuna af plötunni með aukadiski sem inniheldur aðra útgáfu af plötunni. Þar heyrir maður plötuna í heild sinni eins og hún átti upphaflega að hljóma.  Hvað þýðir það eiginlega? Þetta er ein af þessum goðsagnakenndu "týndu" plötum sem glataðist vegna þess að söngvari hljómsveitarinnar og lagasmiður, Lee Mavers, sem er mikill sérvitringur, fann allt plötunni til foráttu (eitthvað sem enginn annar heyrði) og guggnaði á því að gefa hana út.  Masterinn var á endanum eyðilagður en sem betur fer varðveittist upptaka af honum einhvers staðar uppi á háalofti.  Það er þessi upptaka sem við heyrum fyrst með þessari merku útgáfu (sem kom reyndar út fyrir nokkrum árum). Platan kom hins vegar út á sínum tíma í breyttri mynd (það er upptakan sem ég hef hlustað á í gegnum tíðina).  Þá hafði hljómsveitin sundrast og sameinast að nýju (að hluta) og með nýjum upptökustjóra tekið plötuna upp.  Hljómurinn er allt annar en á upprunalegu upptökunni, mun fínslípaðri og poppaðri.  Það fór á endanum því svo að hljómsveitin varð sammála um að vera mjög ósátt við útkomuna og hvatti aðdáendur til að kaupa hana ekki, eins fáránlega og það hljómar.  Að þeirra mati endurspeglaðist hinn sanni andi laganna ekki á plötunni. Samt er sú plata ekkert slor og er vafalaust ein eftirminnilegasta plata síns tíma. Stórkostleg plata, reyndar, en hefði hugsanlega getað orðið betri með hrárri og meira lifandi spilamennsku. Hún kom út ári eftir að Stone Roses gáfu út sína frægu  Hún inniheldur hið fræga There She Goes, sem margir þekkja eflaust best í talsvert útþynntri poppútgáfu.  Takið eftir því (ef þið smellið á tengilinn) hvað rödd Lee Mavers er flott - mátulega rám og hversdagsleg en full af ákefð.  Hér er annað frábært lag af plötunni, Timeless Melody, og minnir mann rækilega á the Stone Roses.  Platan þeirra kom hins vegar út ári eftir að Stone Roses höfðu slegið ræklega í gegn, þökk sé vandræðagangi bandsins í hljóðveri.  Platan var tilbúin mörgum árum fyrr og reyndar eru til fleiri en tvær útgáfur af henni (þessu var ég að komast að nú á dögunum).  Þeir hefðu getað verið stóri áhrifavaldurinn í Britpoppinu og hrundið af stað bylgjunni sem lá í loftinu (afturhvarf til sixties hljómsins).  Þeir misstu sem sagt af lestinni og koma fyrir vikið alltaf til með að vera sem "költ" band sem fáir þekkja, eins konar neðanmálsgrein í sögu breskrar tónlistarsögu.

Eftir að ég fór að hlusta á þessa gömlu uppáhaldsplötu aftur rifjaðist upp með mér að ég var aldrei  fyllilega sáttur við hana (þrátt fyrir að vera mjög hrifinn).  Það var alltaf eitthvað sem ekki virkaði alveg.  Það er fyrst núna eftir að ég hef hlustað á hina upptökuna til samanburðar, þessa sem næstum glataðist, að ég átta mig á því að stúdíóvinnan var sökudólgurinn.  Opinbera útgáfan af plötunni er full fáguð og hljómurinn of hreinn.  Það veldur því að lögin, sem enduróma samt sem áður í höfðinu, kalla ekki á endurtekna spilun.  Það er því gríðarlegur fengur að fá upprunalegu plötuna. Hún býr yfir eldri hljómi sem virkar meira ekta og spilamennsku sem er mun afslappaðri og meira lifandi.

Svo fór ég að lesa mig til og sá að gagnrýnendur eru einmitt á þessari skoðun og tala margir um að hinn sanni hljómur plötunnar hafi helst verið fangaður í lifandi flutningi, hvort sem það var í útvarpsupptökum eða á sviði.  Þá var auðvitað næsta skref að finna tónleikadisk með hljómsveitinni og útvarpsupptökur þeirra hjá BBC.  Svo fann ég líka útgáfu af plötunni á netinu sem ég hafði ekki hugmynd um að væri til - svokallða "De Freitas Session" frá 1987! (platan var sem sagt nokkurn veginn tilbúin þremur áður en endanlega kom út).  Þá kemur á daginn að hljómsveitin hafi gegnum tíðina oft reynt og aldrei náð að klára upptökuferlið á plötunni. Hún er sem sagt til í mörgum brotakenndum útgáfum undir handleiðslu ýmissa upptökustjóra.  Síðan lagði hljómsveitin upp laupana, kannski fyrirsjáanlega, enda var hún, þegar á hólminn var komið, lömuð af fullkomnunaráráttu Lee Mavers.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég vil minna á samkomu hjá Hvítu valdi í Sjálfstæðishúsinu í Reykjavík 1. ágúst nk. fyrir alla félagsmenn og velunnara Hvíts valds og alla þá sem hafa áhyggjur af framtíð norræna kynstofnsins.
Heilsa
Friðbjörn Orri