fimmtudagur, maí 17, 2012

Upplifun: Að leyfa gestunum að ráða

Afmælið í gær var mjög skemmtilegt en það var ekki síður minnisstætt fyrir hvað ég þurfti lítið að hafa fyrir hlutunum. Var reyndar búinn að hafa fyrir því að taka mjög rækilega til, baka fína súkkulaðiköku og undirbúa leiki. En það þurfti ekkert að hafa fyrir stelpunum. Þær vissu alveg hvað þær vildu gera og dunduðu sér með allt dótið þeirra Signýjar og Hugrúnar, á milli mála, þangað til öllum datt í hug að fara út að leika undir lokin. Svona skilst mér að þetta sé oft í stelpuafmælum á þessum aldri (ólíkt hasarnum í strákaafmælunum). Á einum tímapunkti datt mér í hug að grípa inn í og góma athygli þeirra með frábærri sögu sem ég átti, frægri erlendri barnabók sem ég treysti mér til að snara í tilefni af afmælinu (Caps for Sale). Ég var nýbúínn að prufukeyra hana með Signýju og Hugrúnu í vikunni og var viss um að hún myndi slá í gegn, sem hún eflaust hefði gert ef ég hefði fengið að lesa hana. Ég sá alveg fyrir mér að allar stelpurnar myndu sitja í andakt í mjúku rúmi Signýjar og Hugrúnar (sem lágu saman eins og tvíbreitt rúm) og þær voru um það bil að koma sér notalega fyrir þegar tvær þeirra sátu eftir á gólfinu. Þær voru eitthvað uppteknar við barbíhús og slóruðu við að koma sér fyrir. Ég hugsaði mig um og ákvað bara að gefa þeim svigrúm til að hlusta "af gólfinu". En þá gerðist svolítið sem mér fannst merkilegt; um leið og ég sleppti orðinu spruttu allar hinar stelpurnar, sem höfðu verið svo tillitssamar að koma sér fyrir, niður á gólf aftur og byrjuðu líka að dunda sér. Ég byrjaði samt að lesa, vongóður um að bókin næði athyglinni fljótt, en tók eftir því að engin þeirra leit svo mikið sem upp til að sjá þessar frábærlega skemmtilegu myndir sem ég hélt til sýnis. Þá áttaði ég mig allt í einu að þær höfðu aðrar væntingar en ég um hvað skemmtilegast væri að gera í afmælinu. Þegar ég lokaði bókinni ákvað ég að láta af stjórninni í smástund og leyfa þeim að halda "sitt afmæli" í friði.

Engin ummæli: