miðvikudagur, júní 24, 2009

Fréttnæmt: Fyrstu dagar sumarfrísins

Nú er ég loksins kominn í sumarfrí (reyndar eru ein og hálf vika að baki). Satt að segja hefur tíminn ekki nýst vel til að blogga. Ætli bíllinn hafi ekki tekið mestan tíma frá mér. Ég var búinn að bíða með að yfirfara bílinn af því ég vissi af svo góðu fríi framundan. Svo bíður hann, skjóðurinn, eftir mér ókláraður þegar fríið byrjar, auðvitað. Það var svo margt sem ég hafði trassað:

Ég átti eftir að:

* fara með hann í olíuskipti,
* láta líta á viftureimina (sem ískrar ískyggilega öðru hvoru),
* skipta um dekk (orðin nánast gatslitin og griplaus)
* ryðhreinsa ljóta bletti (til þess þarf ég verfæri og vinnuaðstöðu)
* skipta um framrúðu (kom sprunga í hana snemma í vetur)
* bóna bílinn í bak og fyrir (það gerði ég bara einu sinni í vetur)
* taka til í honum og hreinsa að innan
* fara með hann í skoðun.

Tímafrekast af þessu öllu (fyrir utan að hreinsa ryðblettina) er að finna góð notuð dekk í réttri stærð, því þau liggja ekki á lausu. Ný dekk kosta 25-30 þúsund stykkið í dag svo að sá kostur var ekki álitlegur. Með hjálp Togga, hennar Ásdísar, fann ég hins vegar óslitin og fín dekk á 10 þúsund stykkið. Slapp þar með skrekkinn. Á morgun fer bíllinn í skoðun og fær nýja rúðu. Í næstu viku, ef til vill, ræðst ég á ryðblettina. Þetta er allt að koma.

Ég var heppinn að finna dekk í tæka tíð því um síðustu helgi fórum við í fjölskyldunni saman í sumarbústað Jóns Más (þann bústað sem Signý kallar Melkorkuhús, eftir dóttur þeirra Jóns og Margrétar). Þar áttum við ákafleg notalega daga saman. Meira um það næst.

Engin ummæli: