mánudagur, júní 29, 2009

Upplifun: Bústaðaferðin

Núna er Signý með hálsbólgu og smá hita og liggur heima í ró og spekt. Hugrún var líka með hita um daginn en var hitalaus í gær og í dag. Hún er í leikskólanum. Vonandi að ekki sé veikindatörn framundan. Maður er orðinn hálf hvumpinn eftir tímabilið sem við fórum í gegnum fyrir rúmu ári síðan. Við erum búin að vera heppin með veikindi undanfarið og fyrst þær eru veikar núna prísar maður sig sælan fyrir að hafa komist í sumarbústaðinn fyrir viku síðan. Þá nutu þær sín sérstaklega vel. Allt umhverfið þar hentar þeim mjög vel og virkar eins og ævintýri á þær. Í bústaðnum eru "þverkojur" í miklu uppáhaldi (sem sagt efra rúmið er þvert á neðra rúmið, til fóta). Þær nýttu sér rýmið undir eins og hús eða helli og þess á milli vippuðu þær sér upp á efri kojuna þaðan sem þær gátu horft niður á neðri kojuna eins og útbreitt landsvæði. Leikurinn tók á sig skemmtilega mynd því efri kojan breyttist brátt í flugvél og ég lá í neðri kojunni og lék flugstjórann, stýrði ferðalögum til fjarlægra landa. Það sem kom mér skemmtilega á óvart var hvernig þær útbjuggu flugsætin. Í efri kojunni eru geymdar sólstólasessur, með teygjubandi. Sessunum var komið fyrir í "sitjandi stöðu", í vinkli. Systurnar settust á þær eins og sæti og smeygðu teygjubandinu utan um sig: "Beltin spennt!". Signý er yfirleitt með frumkvæðið og Hugrún dugleg að fylgja hugmyndum eldri systur sinnar eftir. Ferðalagið teygði sig fram og aftur um heiminn, frá Afríku til Indlands, með viðkomu á Akureyri! (ekki veit ég hver hefur minnst á Akureyri við hana Signýju. Líklega er einhver þaðan í leikskólanum).

Bústaðaferðin var eftirminnileg fyrir ýmislegt. Einar afi (pabbi Vigdísar) hélt upp á stórafmæli í nágrenninu og þar voru margir saman komnir. Ég tók mig til og rakaði af mér hárið og spókaði mig um í sveitakyrrðinni með "kiwikoll". Allt gott um það að segja, enda ekkert þægilegra í byrjun sumars en að létta aðeins af hárinu. HIns vegar kom upp sérkennileg staða þegar við ætluðum aftur í bústaðinn. Þar er öryggishlið sem þarf að hringja í til að opnist. Það svarar aðeins fyrirfram skráðum símanúmerum svo að ég hef alltaf þurft að hringja í eigendur bústaðarins (Jón Má eða foreldra hans) til að fá hliðinu lyft. Það er ekkert mál nema það að núna vildi hliðið ekki opnast. Við biðum í óvissu um það hvenær eða hvort hliðið myndi opnast. Hugrún var sofnuð eftir veisluna fyrr um daginn, dagur að kvöldi kominn, og við smeyk um að það myndi fara illa um hana til lengdar. Þarna biðum við í rúman hálftima eftir því að einhver annar gestanna á svæðinu birtist og myndi opna fyrir okkur. Það reyndust furðufáir á svæðinu og sá sem endanum birtist og hleypti okkur inn kannaðist við þessa bilun í búnaðinum. Það er eiginlega furðulegt að þetta skuli geta komið fyrir. Ég spjallaði við Jón um þetta eftir á og við vorum sammála að þetta gæti í einhverjum tilvikum reynst mjög alvarlegt, til dæmis ef maður er að fara í skyndingu á sjúkrahús með veikt barn! Það sem er hins vegar eftirminnilegast við þessa uppákomu er sú sérkennlega staða sem ég sjálfur var í, nýbúinn að snoða mig og alveg svartklæddur frá toppi til táar. Ég hefði getað farið fótgangandi og leitað aðstoðar í næsta húsi. Ég hins vegar kunni engan veginn við það að banka upp á svona útlítandi því ég var viss um að ég myndi þykja grunsamlegur í meira lagi. Við sátum góða stund og mændum á einn bústaðinn, nokkur hundruð metra í burtu, þar sem greinilega voru gestir innandyra á meðan ég reyndi að sannfæra sjálfan mig um að einhver hlyti að birtast á næstunni (enda vont að vera í burtu þegar einhver loksins kemur að hliðinu). Þetta var svona svipuð stemning og að bíða eftir strætó í rúman hálftíma. Óvissan er verst og maður tvístígur allan tímann. En sem betur fer fór þetta vel og allir sofnuðu vel á endanum eins og allar hinar næturnar.

Engin ummæli: