þriðjudagur, júní 02, 2009

Upplifun: Þrefalt brölt

Eins og ég ýjaði að í síðustu færslu átti eftir að verða framhald á menningarupplifunum mánaðarins. Aldrei þessu vant fór ég út úr húsi þrjú kvöld í röð í síðustu viku á meðan Vigdís var heima og gætti Signýjar og Hugrúnar. Fyrsta daginn, á þriðjudaginn var, fór ég í bíó og sá Draumalandið. Sú mynd stóðst væntingar fyllilega. Hún fór ekki út í öll smáatriði bókarinnar en bætti í staðinn ýmsum áhugaverðum molum við og var sjónrænt mjög mögnuð upplifun. Í myndinni kemur meðal annars fram hversu hrikalega stórfyrirtækin hafa leikið sér að Austfjörðum og keypt þau, rétt eins og eiturlyfjasali sem gefur óhörðnuðum unglingum dóp og herðir síðar meir snöruna. Við pabbi fórum á myndina saman og röltum fram og til baka í Háskólabíó í frábæru vorveðri. Daginn eftir kíkti ég niður í bæ þar sem ég mælti mér mót við Jón Má yfir úrslitaleiknum stóra milli Barcelona og Manchester United. Veðrið var áfram frábært og við hittumst hjólandi. Hann var kominn á undan mér á staðinn og úrskurðaði "fundarstaðinn" fullbókaðan. Áhuginn á leiknum var það gríðarlegur. En við dóum ekki ráðalausir og hjóluðum heim til hans í Álfheimana. Sáum leikinn þar og sötruðum pilsner. Sá drykkur var keyptur í klukkubúð í Glæsibæ og verðið kom mér til að kvarta sáran við afgreiðslustúlkuna - sem samsinnti fáránlega háu verði enda sagðist hún sjálf koma með nesti í vinnuna!! Pilsnerinn kostaði sem sagt um 178 krónur sem er talsvert meira en hægt er að fá hann á í Bónus (68 krónur). Reyndar ekki alveg sama tegund en það vekur mann samt til umhugsunar. Að lokum skellti ég mér á síðustu stundu á sögulega sinfóníutónleika í Háskólabíói. Þeir voru sögulegir fyrir það annars vegar að tónlistin fjallaði um alræmt umsátur Nasista um Leníngrad í síðari heimstyrjöldinni, túlkað af rússanum Shostakovich, sem var í borginni í upphafi umsátursins. Tónlistin er því mjög ógnvekjandi og skelfileg. Sigurmars, sem spilaður er í lokin, er ljótleikinn uppmálaður, enda stóð enginn upp sem hreykinn sigurvegari eftir þessa raun. Hin sögulega ástæðan fyrir því að ég skellti mér á tónleikana var hljómsveitarstjórinn sem kominn er vel á aldur. Rozdhestvensky (vonandi skrifaði ég nafnið rétt) fæddist á fjórða áratug síðustu aldar, var einn af vinum sjálfs tónskáldsins og er með virtari hljómsveitarstjórum síðustu aldar. Hann er þar að auki einn af mínum uppáhalds hljómsveitarstjórum allra tíma. Gott ef ég á ekki hátt í tíu diska með klassískri tónlist sem keyptir voru af áfergju út á nafn hans eingöngu. Keimurinn af þessari minningu á því eflaust eftir að verða nokkuð sætur þegar fram líða stundir.

Engin ummæli: