mánudagur, maí 25, 2009

Daglegt líf: Stiklað á stóru

Undanfarin ein og hálf vika hefur verið uppfull af uppákomum og viðburðum ýmiss konar. Fyrst var það Eurovision sem litaði dagana sínum skæru neonlitum - þrjú kvöld með stuttu millibili (þar af horfði ég á eitt og hálft kvöld). Þetta setti aldeilis mark sitt á tilveruna vegna þess hvað áhrifin á samfélagið voru mikil. Í fyrsta skipti síðan hrunið mikla átti sér stað heyrði maður fólk tala saman á jákvæðan hátt. Gleði var í loftinu. Fyrstu sumardagarnir voru nýlentnir á Fróni og fólk spókaði sig úti um allt með bros á vör. Mér skilst að úrslitakvöldið í Idolinu hafi verið nánast á sama tíma. Mikill uppskerutími almennings.

Á þessum tíma var mikið um að vera innan fjölskyldunnar og í nánasta umhverfi. Fannar og Guðný (börn Beggu systur) héldu upp á afmæli sitt. Þau halda stundum upp á afmælið sitt sameiginlega vegna þess hvað er stutt á milli þeirra á árinu. Svo var hún Begga systir að útskrifast úr námi í fatahönnun úr kvöldskóla F.B. Hún hélt nú ekki upp á það sérstaklega en tók þátt í athöfninni með pompi og prakt. Útskriftin reyndist vera með stærra móti. Skólastjórinn, hún Kristín Arnalds, var að láta af störfum vegna aldurs. Ég man að þegar ég byrjaði í skólanum að þá hafði hún nýhafið störf sem skólastjóri. Mér fannst allt í einu vera óralangt síðan. Rúm tuttugu ár síðan ég byrjaði í skólanum, haustið 1988. En fyrst við erum komin á þá braut að fjalla um óravíddir tímans þá héldum við Vigdís upp á sjö ára samband okkar (og fimm ára trúlofun) í vikunni sem leið (átjánda maí). Við ætluðum út að borða en breyttum áætluninni og náðum í mat heim úr nágrenninu, beint af Sjávarbarnum. Við mælum heilshugar með þessum stað. Ferskt sjávarfangið hitti aldeilis í mark og mettaði marga maga (hjá okkur voru nokkrir gestir).

Á hæðinni fyrir ofan okkur dró einnig heldur betur til tíðinda fyrir tveimur vikum síðan. Þá lést Matthildur, eigandi íbúðarinnar sem við leigjum. Hún hefur reyndar alltaf verið fjarverandi, veik og ófær um að snúa til baka. Við höfum alla tíð verið í beinu sambandi við son hennar en hann hefur annast íbúðina í hennar fjarveru. Á miðvikudaginn var kom stórfjölskyldan saman á efri hæðinni og hélt erfidrykkju og átti saman notalega stund, að mér skilst. Við Vigdís héldum okkur fjarri og veittum þeim það svigrúm sem okkur taldist eðlilegt. Vorum búin að taka vel til í garðinum og gera umhverfið sem skikkanlegast þannig að þau gátu verið utandyra í góðu veðri og spókað sig í garðinum sem gamla konan hafði svo mikið dálæti á. Sjálf jarðarförinn var svo á föstudaginn var.

Þetta er því búið að vera óneitanlega eftirminnilegur tími að mörgu leyti. Svo margt hefur gengið á að ég hef sjálfur þurft að afboða tvær læknaheimsóknir í vikunni vegna anna. það er þá á næsta leyti, ásamt (mögulega) einhverjum viðburðum af listahátíð. Vel á minnst: Fyrir aðeins tveimur dögum gerðum við Vigdís okkur dagamun, fengum pössun og skelltum okkur niður í bæ. Lhasa de Sela hélt tónleika á Nasa fyrir fullu húsi, eins og ég greindi frá nýlega. Við hittum góða vini og kunningja og áttum afar skemmtilega stund, bæði á tónleikunum sjálfum og í næsta nágrenni eftir á. Tónleikarnir voru vel heppnaðir og vantaði bara herslumuninn upp á að Lhasa næði af yfirvinna þá aumu staðreynd að vera stödd í ópersónulegum og kuldalegum súlnasal.

Engin ummæli: