föstudagur, maí 15, 2009

Upprifjun: Tónlist með í för

Nú er listahátið hafin og ekki nema um vika þangað til við Vigdís förum að sjá Lhasa de Sela. Ég var eitthvað búinn að ota þessari tónlist að henni fyrir nokkrum árum síðan svo hún var fljót að samþykkja miðakaupin. Þetta er ómótstæðileg blanda af kaffihðúsatónlist og sígaunatónlist, hæfilega mjúkt en samt sveipað dulúð. Akkúrat núna er ég að færa tónlistina hennar yfir á ipodinn, því við eigum tónlistina hennar ekki annars staðar en í tölvunni. Við erum búin að ráðgera spilakvöld í vikunni þar sem við skröbblum og hlustum á Lhösu (ef ég má fallbeygja hana). Það er tilhlökkunarefni.

Ipodinn (eða spilastokkurinn, eins og hægt er að kalla hann) fer í gegnum yfirhalningu um að bil mánaðarlega. Þá skiptir maður út kannski helmingnum fyrir eitthvað nýtt og spennandi. Þegar ég fer yfir hann núna vakna hins vegar skemmtilegar minningar um ferðalagið mitt til Indlands.

Þarna eru Jane´s Addiction sem buðu mér upp á létt geðveika rokktónlist á leiðinni út á völl, þegar ég var fullur eftirvæntingar. Nick Drake tók við á Heathrow og náði að þurrka út öll spennuhlaðin áreiti flugvallarins. Mér fannst ég vera við arineld þar sem ég hélt á ferðatöskum á löngu færibandi. Ómetanlegt. Eftir næturbrölt í London (þið munið að ég þurfti að vera yfir nótt áður en ég flaug til Indlands) þá tók ég næturstrætó til baka upp á flugvöll, um þrjú um nóttina, og hlustaði á eldgamlar BBC upptökur með Bowie frá þeim tíma þegar hann var enn í vísnasöng og þjóðlegri tónlist. Þá var gaman að vera á breskri grundu og horfa á myrkvuð stræti borgarinnar líða hjá. Ferðin framundan var hins vegar löng. Eftir svefnlausan sólarhring í viðbót, en þá var ég um það bil að lenda á áfangastað á Indlandi nóttina á eftir, reyndist stimamjúkur Leonard Cohen mér gríðarlega vel. Hann var eins og vögguvísa í næturmyrkrinu þegar ég var orðinn hálf stjarfur af svefnleysi og náði að mýkja mig allan eins og nuddari. Þegar til Indlands var komið hlustaði ég reyndar mjög lítið á tónlist því það eru svo gríðarlega mörg áreitin í loftin hvort eð er og nóg að gera. Hins vegar man ég eftir sérlega notalegum hvíldarstundum uppi á hótelherbergi með glitrandi stemningsfullri djasstónlist eftir John Surman (sem minnti mig að mörgu leyti á Talk Talk). Á leiðinni til baka frá Indlandi kom spilastokkurinn sér aftur vel - aðallega á flugvellinum. Þá tók PJ Harvey að sér hlutverk Nicks Drake og söng fyrir mig af nýlegri plötu (sem er undarlega angurvær miðað við hverju maður er vanur frá henni). Aftur fór ég inn í miðbæ Lundúna á leiðinni heim. Þá tók ég mig til í fyrsta skipti og ákvað að hlusta á fræga tónleika Radiohead frá 1997 þegar þeir slógu í gegn á Glastonbury (rétt eftir útgáfu OK Computer). Kennileiti Lundúna blöstu við á meðan úr lestinni. Að lokum, þegar heim var komið var hreint magnað eftir svona langt ferðalag að heyra í Sigur Rós á leiðinni í vinnuna fyrsta daginn. Sólin skein og birtan var óvenju falleg, að mér fannst. Ferðalagið hafði verið stutt en kraftmikið og magnað. Mér finnst gaman til þess að hugsa það komi til með að rifjast upp að einhverju leyti í hvert sinn sem ég hlusta á tónlistina að ofan aftur og eins og allir vita getur tónlist vakið upp sterkar minningar.

Engin ummæli: