mánudagur, maí 04, 2009

Daglegt líf: Seinni afmælisveisla Hugrúnar

Daginn eftir afmælisveisluna hvíldum við okkur heima. Hugrún var svolítið slöpp og ég með kvefpest (eða ofnæmi, í bland). Á sunnudaginn fengum við hins vegar annan vænan hóp af góðum gestum í tilefni af afmæli Hugrúnar. Þetta var hópurinn sem fór á mis við hina veisluna, gamlir vinir með börn á sama aldri og okkar. Aftur gerðist það að íbúðin fylltist. Í þetta skiptið voru ívið færri innanhúss en þeim mun fleiri börn (Signý, Hugrún, Friðrik Valur, Dagmar Helga, Melkorka, Áslaug Edda og Þórdís Ólöf). Við foreldrarnir undruðumst hversu vel þeim gekk að leika sér saman. Í ábyggilega tvo heila tíma umgengust þau hvert annað í sátt og samlyndi. Það var unun að fylgjast með þeim í sjálfstæðum leik. Einhvern veginn grunar mig að þrönga rýmið hafi stuðlað að rósemi barnanna (það gat enginn rasað almennilega út). Sjálfum fannst mér mjög huggulegt að þurfa ekki nema að snúa mér hálfhring eða smeygja mér yfir einn af þröskuldunum til að renna inn í nýjar samræður. Maður er manns gaman. Matarhlaðborðið var einfalt og frjálslegt með sætindum í bland við mat: Grænmetisbaka ásamt salati var á boðstólum, léttur ostabakki með kexi og vínberjum, kökuleifar frá fyrri veislunni (sem náðu að klárast) og hunangsmelóna sem svalaði þörf barnanna.

Mikið er ég farinn að hlakka til sumarsins. Þá verður sko hægt að útfæra þessa veislu frekar í blíðviðri, utandyra, með krakkana valsandi um garðinn. Vonandi hefur kreppan ekki áhrif á veðrið í sumar :-)

Engin ummæli: