Eins og fram kom síðast er margt búið að ganga á. Ýmiss konar veikindi hafa barið að dyrum en einnig gleðilegir atburðir, stundum samtímis. Til dæmis var Signý sárlasin um mánaðarmótin. Hún var með háan hita í þrjá daga og var um það bil viku að jafna sig. Á meðan var haldið eftirminnilegt brúðkaup í stórfjölskyldunni þegar Ásdís og Toggi giftu sig. Signý var svo lasin heima að hún var varla meðvituð um hvað var að gerast. Hugrún naut sín hins vegar til hins ítrasta. Hún fékk það hlutverk að vera blómaberi og skilaði sínu hnökralaust. Hún settist í þrepin við altari Dómirkjunnar, var mjög yfirveguð og brosti út í salinn með jöfnu millibili eftir því hver náði augnsambandi við hana. Athöfnin var einföld, falleg og látlaus. Svo fóru veislugestir út í kaffi Flóru. Það var einstaklega vel til fundið því veðrið var svo dumbungslegt. Þar er bara huggulegt að finna fyrir rigningunni dynja á glerskálanum eins og í vel heppnaðri útilegu. Krakkarnir undu sér líka einstaklega vel á þessum stað tiplandi í kringum tjörnina með gullfiskunum. Þeir fengu sáupkúlustauka til að leika sér með og höfðu nóg fyrir stafni á meðan við hin sátum afslöppuð í góðum félagsskap.
Þau tóku sig einstaklega vel út brúðhjónin og voru svo sannarlega vel að því komin að eiga hvort annað, enda fimmtán ára samvistir að baki. Þau hafa farið í gegnum alls kyns tímabil í sameiningu, og hafa upplifað bæði súrt og sætt, og vita nákvæmlega hvar þau hafa hvort annað. Það er ekki hægt að segja um mörg nýgift hjón.
Það gerðist margt skemmtilegt í Flóru en ég má til með að segja frá einni uppákomu. Ég var svolítið utan við mig um tíma og heyrði allt í einu einhvern kalla fram einhver orð við klingjandi glas, eitthvað sem endaði á -oss. Fólk lyfti glösum og ég gerði slíkt hið sama og endurtók það sem mér fannst hafa verið sagt: "Já, proust" (er það ekki franska fyrir "skál"?) Ég skildi ekkert hvers vegna viðkomandi hafði slegið um sig á frönsku en ég tók bara undir og var eitthvað hissa á því þegar kliður fór um salinn sem magnaðist þar til brúðhjónin stigu upp úr sætum sínum og skelltu myndarlegum kossi á hvort annað. Þá fattaði ég: "Já, koss!", var allt of seinn að draga fram myndavélina. Missti af Kódak-augnablikinu.
Sem betur fer hvíslaði Vigdís einhverju að Hugrúnu nokkru seinna, sem lék á als oddi. Vigdís lét klingja í glasi og Hugrún kallaði stríðnislega: "Kyssist! Kyssist!" og þá kom annað tækifæri. Stríðnisglampinn í augum Hugrúnar var hins vegar svo ómótstæðilegur að ég byrjaði að smella mynd af henni. Ég verð bara að treysta því að aðrir hafi náð kossinum :-)
Svo var ennþá gaman þegar við komum heim. Ég var afslappaður að aðstoða Hugrúnu við að búa sig undir svefninn og sagði upp úr þurru: "Hugrún, þú varst alveg frábær í dag!" Sú stutta svaraði bara blátt áfram: "Já, ég veit". Síðan bætti hún við: "Þetta var líka alveg frábær dagur!"
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli