fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Matur: Túnfiskur á snittubrauði

Í gær höfðum við Vigdís það náðugt yfir vídeóspólu (The Village) og bjuggum til fljótlegan rækjurétt sem ætlar að verða einn af okkar uppáhaldsréttum. Auðveldur, ódýr og einmitt fínn fyrir stífluð vit (tabascosósa og pípar sjá fyrir því). Mér varð hugsað í leiðinni til baka og sá að ég hef ekki skrifað um mat nokkuð lengi og í raun vanrækt síðuna í doðanum undanfarnar vikur. Á þessum tíma fórum við Vigdís nefnilega í gegnum skemmtilega túnfisksviku. Það byrjaði með því að við keyptum okkur ferskan túnfisk (svokallaða túnfiskssteik). Ég var með tiltekinn rétt í huganum sem ég hafði bragðað hjá foreldrum mínum fyrir nokkrum misserum en komst að því - þegar ég var farinn að stað með þetta - að undirbúningsvinnan krafðist þess að fiskurinn lægi í marineringu yfir nótt. Í símanum sannaðist enn hið fornkveðna að jafnan séu góð ráð eru undir hverju móðurrifi því ég fékk aðra einfalda en ótrúlega góða uppskrift í staðinn. Svo er náttúrulega eins og við manninn mælt, nokkrum dögum síðar, fórum við Vigdís í mat til mömmu og fengum við að borða hinn réttinn. Ég hef því tvær uppskriftir hér fram að færa. Aðra þeirra (þessa einföldu og fljótlegu) birti ég hér en til að spara pláss vísa ég á hina gegnum uppskriftasíðuna mína.

1. Byrjum á því að skera ferskan engifer í skál og hella sojaolíu yfir (ca. 1 msk af engifer fyrir hverjar þrjár af olíu). Þetta er látið standa í nokkrar mínútur.
2. Skerið snittubrauð (u.þ.b. eitt á mann) niður í 1. cm. þykkar sneiðar. Þetta er penslað með ólífuolíu og sett í eldfast fat og inn í ofn. Hitað þar þangað til skorpan tekur smá lit.
3. Túnfiskur er einnig penslaður með olíunni og hann síðan grillaður (eða steiktur á rifflaðri pönnu) í eina og hálfa mínútu á hvorri hlið. Það skiptir máli að steikja hann ekki of lengi. Hann á að vera bleikur að innan. Fiskurinn er saltaður og pipraður eftir smekk.
4. Snittubrauðið er að lokum borið fram með litlum túnfisksneiðum (um 1 cm. þykkum) og sósunni hellt yfir.

Rétturinn minnir nokkuð á sushi-mat Japana. Bragðið kemur eflaust á óvart.

Engin ummæli: