miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Daglegt líf: Veikindi, afmæli og frí.

Ég er búinn að vera með flensu undanfarna daga. Hún læddist að mér á föstudagskvöldið og hefur verið viðloðandi síðan, án þess þó að leggja mig í rúmið. Vigdís átti afmæli um helgina (28 ára) og ég tók á honum stóra mínum, í mínu tuskulega ástandi, og fór út að borða á laugardagskvöldið á Hornið og fór þar að auki í Bláa lónið daginn eftir þar sem við gerðum okkur glaðan dag. Lónið held ég að hafi gert mér bara gott enda fékk maður yl í kroppinn það sem eftir lifði dags. Ég dröslaði mér í vinnuna bæði á mánudag og þriðjudag og var stöðugt að snýta mér með tilheyrandi látum. Fór snemma heim báða dagana, þ.e. strax eftir kennslu. Ástæðan fyrir því að maður lætur sig hafa það að vinna í svona ástandi er sú að núna hefst vetrarfrí. Í dag er starfsdagur hjá kennurum og honum fylgir frí á fimmtudag og föstudag. Ég er víst einn þeirra sem veikjast helst í fríum, fékk síðast flensu um jólin. Annars ætla ég að láta það eiga sig að liggja fyrir flensu þessa dýrmætu frídaga framundan. Bryð bara engiferinn af nógu miklu krafti og drekk mitt te.

1 ummæli:

Kristján sagði...

Við Stella óskum Vigdísi til hamingju með afmælið og vonum að Steina batni fljótt. Kveðja frá Sviss, Kristján