sunnudagur, febrúar 20, 2005
Daglegt líf: Menningarhelgi
Ég tók mig til á föstudaginn og tók þátt í Vetrarhátíðinni með stæl. Sú þátttaka spannaði alla helgina og tók á sig ýmsar myndir. Ég var sem sé nýbúinn að skutla Vigdísi á þorrablót og fór þaðan í Perluna. Þar var Íslendingasögusafnið opið öllum í tilefni af Vetrarhátíðinni (og það átti við um öll söfn í Reykjavík þetta kvöld). Ég var mjög hrifinn af þessu fyrirkomulagi og gerði mér sérlegan krók á Kjarvalsstaði á leiðinni heim. Bæði söfnin voru mikil andleg innspýting. Safnið í Perlunni (sem ég man ekki hvað heitir í raun) er staðsett inni í einum tankinum og hýsir undraverða sviðsetningu á þekktum atriðum úr sagnabálki okkar. Þetta er frábær sýning, bæði fyrir okkur Íslendinga og erlenda gesti. Kjarvalsstaðir hýstu hins vegar allt annars konar sýningu og þar gekk ég inn á kynningarfyrirlestur um ævistarf Harðar Ágústssonar. Ég vissi ekkert um hann fyrirfram og það kom mér á óvart hvað hann hefur afrekað mikið, sérstaklega sem fræðimaður á sviði íslenskrar byggingarsögu. Það má segja að á sama hátt og Kjarval kenndi okkur að sjá fegurð í mosanum og hrauninu opnaði Hörður augu okkar fyrir eigin byggingarlistasögu. Á leiðinni út kíkti maður einn hring í Kjarvalsálmunni. Í gær hélt ég svo áfram. Þá komu kennarar úr Brúarskóla saman í heimahúsi. Þar var vart þverfótað fyrir skemmtilegu fólki. Þaðan var stefnt á ball á Nasa við undirspil hinna fjölþjóðlegu en alíslensku Spaða. Ótrúlega gaman að taka þátt í alvöru balli þar sem fólk kemur saman til að dansa með gamla laginu. Salurinn var enn iðandi af dansorku þegar við Vigdís læddumst heim upp úr eitt. Dagurinn í dag hefur því verið mjög rólegur. Ég hitti reyndar Birki samkvæmt nýlegri venju, og við kíktum m.a. á fréttaljósmyndasýninguna í Gerðasafni. Þetta var alveg frábær sýning og það kom mér á óvart að sjá á neðri hæð safnsins svart-hvíta sérsýningu Ragnars Axelssonar úr ferðum hans um fjarlæg hemshorn, m.a. til Síberíu. Það hreyfði við ýmsum minningum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli