mánudagur, janúar 17, 2005

Upplifun: Svaðilför á svellbunka

Góð og erilssöm helgi er að baki. Ég lærði meðal annars að það er mjög varasamt að fara á ónegldum bíl út fyrir bæjarmörkin í frosti. Ég var á jeppa, gott og vel, en eins og vegirnir voru klakabrynjaðir í Heiðmörkinni um helgina þá tel ég mig heppinn að sleppa heim með óskemmdan bíl og heill á húfi. Ég var semsagt í saklausum bíltúr með yngri frænda mínum og ókum við sem leið lá frá Rauðhólum í átt að Vífilsstöðum. Ferðin sóttist hægt því vegurinn var spegilsléttur á köflum. Þegar við vorum komnir langleiðina á áfangastað lentum við í alvarlegri sjálfheldu í allhárri og ískyggilegri brekku. Ég fann hvernig bíllinn fór að renna til baka stjórnlaust. Hann stöðvaðist sem betur fer á miðri leið, nóg fyrir mig til að stíga út og gaumgæfa hættuna. Við vorum staddir í miðri ísilagðri blindhæð og urðum að beina bílnum siglandi aftur niður vegna hættunnar á að fá á okkur bíl að ofan. Mér leist ekki betur á stöðuna en svo að ég benti frænda mínum á að bíða fyrir utan - ég tæki þessa áhættu einn. Ég skoðaði stöndugustu vegkantana og vonaðist til að geta beint bílnum þangað til að ná festu. Bíllinn lét hins vegar illa að stjórn. Hann virtist um stund ætla að snúast mér í hag en fór svo skyndilega hálfhring til baka. Við það var ekki umflúið að bakka niður (eða renna niður afturábak öllu heldur), sem mér tókst farsællega. Ég fann þá hversu spenntur ég var orðinn höndunum. Myrkur var að skella á og ekki annað í stöðunni en að læðast sömu leið til baka, rúman klukkutímaakstur í fyrsta gír. Á leiðinni sáum við annan jeppa utan vegar með nefið ofan í skurði og tvo eigendur hrista höfuðið heilu og höldnu.

Engin ummæli: