mánudagur, janúar 24, 2005
Upplifun: Útsýnisturn yfir Breiðholtið
Aftur fór ég með Birki í bíltúr um helgina. Eftir ýmiss konar brölt datt honum sem snöggvast í hug að kíkja upp í Blásali. Ég spurði hann að því hvað þetta væri en hann svaraði því að þetta væri bara "hús". Ég lét hugdettuna eftir honum og fattaði þegar á staðinn var komið hvers vegna hann hafði áhuga á þessu tiltekna húsi. Þetta er hæsta blokkinn fyrir botni Kópavogsins og blasir við Breiðholtinu í öllu sínu veldi. Sjálfkrafa fór maður að gæla við þá tilhugsun hvað það væri nú gaman að rölta þarna inn í útsýnistúr upp á efstu hæð, en það gerir maður samt ekki. Þegar við vorum búnir að skyggnast um í andartak sáum við hins vegar merkimiða við innganginn sem á stóð "Opið hús". Þetta var merkt einhverri fasteignasölu. Tækifærið blasti þarna við og við vorum ekki lengi að grípa það. Íbúðin sem var til sýnis var lítil og hugguleg, eitthvað sem Birki fannst hæfa sjálfum sér ágætlega í framtíðinni, en útsýnið var hreint frábært. Geggjað að skoða Breiðholtið úr þessari átt en að sama skapi er hálf dapurlegt til þess að hugsa að fyrir tíu árum spásseraði maður þarna um í móanum tínandi ber.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli