sunnudagur, desember 19, 2004

Heimildamynd: Do they know its Christmas?

Ég sá um helgina frábæra heimildamynd í sjónvarpinu um tilurð lagsins "Do they Know it´s Christmas?". Þátturinn var settur saman í tilefni af því að tuttugu ár eru liðin frá útkomu smáskífunnar sögufrægu. Það var virkilega gaman að sjá hvernig lagið þróaðist úr bölsýnni Dylan-laglínu yfir í tindrandi jólalag með hjálp hljómborðsstefs upptökustjórans Midge Ure. Skondið að heyra hvernig Geldof vatt sér umbúðalaust að efninu þegar hann safnaði saman stjörnunum gegnum síma: "Phil, I need a famous drummer!". Drepfyndið að sjá allar helstu make-up hetjur níunda áratugarins safnast saman, nývaknaðar, með timburmenn, ófarðaðar, fyrir framan stúdíóið þennan sunnudagsmorgun með haug af ljósmyndurum í kring. Merkilegt að heyra umræðuna um tvíræða textabrotið "Tonight, thank God, it´s them instead of you" sem Bono vildi upphaflega ekki syngja, en gerði svo frábærlega að lokum. Flott að sjá hvernig lagið þróaðist á einum degi undir gríðarlegri tímapressu frá tiltölulega einföldu lagi yfir í sælukenndan hópsöng þar sem egóin runnu saman. Hugmynd sem varð að metsölulagi á innan við viku. Gaman til þess að vita að einhvers staðar í plötubunkum inni í geymslu á ég að eiga eintak af þessari merkilegu skífu.

Engin ummæli: