mánudagur, nóvember 06, 2006

Netið: Sýndarplötusafnið stækkar

Nú er ég búinn að vera talsvert mikið heima síðustu tvær vikurnar. Við Signý skemmtum okkur vel saman en þess á milli vill hún dunda sér sjálf eða þarf að leggja sig. Þá finn ég mér eitthvað annað að gera. Það sem hefur hentað mér best við þessar aðstæður er að vinna við einfalda handavinnu af einhverju tagi. Þá kemur fyrirbæri eins og Rate Your Music mjög sterkt inn. Þetta er vefsamfélag þar sem mönnum gefst kostur á að setja inn í gagnagrunn upplýsingar um plötusafnið sitt ásamt einkunnum og umsögnum. Þetta minntist ég á fyrir um ári síðan þegar ég uppgötvaði síðuna en nú hef ég bætt verulega í safnið og get ófeiminn flíkað því út á við (er þó bara um þriðjungur safnsins kominn upp). Það sem heillar við þetta netsamfélag er sú innsýn sem maður fær inn í tónlistina frá venjulegum hlustendum auk tölfræðinnar sem birtist um manns eigið safn.

Rennið músinni niður síðuna til að skoða það og þá sjáið þið síðustu færslur í litlum glugga. Þar fyrir ofan eru nokkrir flipar (recent, ratings, collection, reveiws, wishlist og tags). Til dæmis ef þið smellið á "reviews" birtist plötulistinn ásamt umsögnum í stafrófsröð (því er hægt að breyta með því að smella á flipana þar fyrir ofan - til dæmis til að raða í einkunnaröð). Með því að smella á einkunnir, þ.e. "ratings" þá birtist súlurit yfir einkunnagjöf mína. Þar er hægt að smella á tiltekna gæðaflokka (til dæmis meistaraverkin sem fá fimm í einkunn eða plöturnar þar fyrir neðan "(fjórir komma fimm)" sem eru álíka góðar, með örlitlum vanköntum eða takmarkaðri á einhvern hátt. Ég útskýri þetta svo sem ágætlega á aðalsíðunni en í stuttu máli má segja að plötur sem ég gef þrjá eða meira í einkunn eru á einhvern hátt í uppáhaldi hjá mér. Skalinn frá 4-5 er einhvers konar snilld á meðan meðalmennskan er miðuð við einkunnina tvo (tónlist sem rennur hlutlaust í gegn). Amatöraháttur eða yfirgengileg tilgerð fær ekki meira en einn í einkunn. Þangað hefur R.E.M. til að mynda komist og Bowie hefur daðrað við lágkúruna líka. Annars má endalaust leika sér með þetta, og jafnvel deila.

Eitt af því sem er hvað skemmtilegat við þetta allt saman er flokkkunarkerfið, svokallað "tags". Þeir birtast hér og þar með umsögnunum og þá er alltaf hægt að smella á þann efnisflokk sem er álitlegastur. Sem dæmi um tvo myndarlega (en ekki of stóra) má nefna electronica (þar sem rafræn tilþrif eru áberandi, en tónlistin þó ekki endilega ósungin) og confessional (þar sem tónlistin er mjög persónuleg og allt að því nærgöngul). Þarna eru margir efnisflokkar og margt enn á vinnslustigi.

Þessir efnisflokkar voru ekki til staðar fyrir ári síðan enda eru gömlu umsagnirnar mínar efnisflokkalausar fyrir vikið (ég vinn í því með tímanum enda finnst mér þetta mjög spennandi). Sama má segja um "visualize" möguleikann þar sem hægt er að skoða á mjög sjónrænan og skemmtilegan hátt plötusafnið í heild sinni. Ég mæli með þessu.

Engin ummæli: