sunnudagur, nóvember 05, 2006

Upplifun: Vandræðalegt þroskamat

Fyrir tveimur vikum lofaði ég því að minnast á skoðunina sem Signý undirgekkst þá. Tilvalið að minnast á það hér strax á eftir hinni skoðuninni (nú er vart þverfótað fyrir ferðum okkar upp á heilsugæslu). Sú skoðun var nokkuð eftirminnileg og fékk mig til að velta vöngum yfir ýmsu.

Þannig var að ég var nýbyrjaður í feðraorlofi og hafði nýlokið við að skutla Vigdísi í vinnuna, á morgunvakt, og var af ýmsum ástæðum mjög illa sofinn. Þegar inn var komið fann ég hvað það var óþægilegt að vera einn með Signýju í skoðun. Yfirleitt hefur Vigdís spjallað á meðan ég yfirvegaður klæði Signýju úr. Núna þurfti ég að halda uppi vitrænum samræðum, eins illa sofinn og ég var, og klæða Signýju úr á sama tíma. Við þetta bættist að hjúkrunarfræðingurinn var með nema með sér, aldrei þessu vant, sem fylgdist gaumgæfilega með. Allt í einu fannst mér mjög óþægilegt að standa í þessu, klæðandi Signýju úr undir eftirliti, svarandi einhverjum spurningum í leiðinni. Svolítið skrítin upplifun. En ég var hæfilega kærulaus því þetta gengur yfirleitt bara út á að mæla lengd bols, ummál höfuðs og vigta. Mjög einfalt. Einstöku sinnum bætist sprauta við. En eitthvað var ég óvenju klaufskur við þetta - orðinn hálf pirraður. Ég spurði um sprautuna, sem ég átti von á í þetta skiptið, þá sagði hjúkkan "Nei, nei. Núna er þroskamat! Við ætlum að skoða hvað hún kann, hvort hún getur vinkað, sýnt hvað hún er stór, klappað og svona!"

Mér var brugðið. Fyrsta próf Signýjar! Eða vorum það við Vigdís sem vorum í prófi?

Ég svaraði að bragði að við hefðum ekkert verið að leggja áherslu á þessi atriði. Hún kann samt ýmislegt annað. Ég hugsaði með mér í leiðinni: "Hvernig á hún að geta sýnt hvað hún er stór, ef maður hefur ekki kennt henni það? Maður hefði mátt vita af þessu fyrirfram". Við höfðum heldur ekki verið að vinka henni neitt. Við erum alltaf hjá henni, meira eða minna! "En hún klappar alveg", sagði ég vandræðalegur, "sérstaklega ef hún heyrir tónlist, þá fer hún strax að klappa". Þá byrjaði hjúkkan að brosa framan í hana og klappa svolítið og Signý brosti til baka og lagði saman lófana, hikandi, en klappaði ekki.

Þetta var eins og að sýna glæsibifreið sem fer síðan ekki í gang.

Ég hefði getað sungið "Allir krakkar" eða eitthvað og fengið hana til að klappa undireins. En ég var ekki í stuði til þess.

Eftir þetta var Signý mæld, eins og við var búist (hún er um það bil átta kíló) og þær stöllurnar, hjúkkan og neminn, yfirgáfu mig án frekari seremóníu. Læknir kom inn og skoðaði Signýju enn frekar, hlustaði hana, kíkti í eyrun og athugaði síðan hreyfifærnina. Ég leyfði henni að halda í puttana á mér og hún labbaði af ákefð eftir gólfinu. Lækninum leist vel á.

Eftir þessa heimsókn var ég mjög hugsi. Er svo mikilvægt að öll börn læri allt samtímis? Eru þessi fáu atriði mælikvarði á þroska barnsins, eða var svar mitt um að henni hafi ekki verið kennt það tekið gott og gilt? Það er nú ýmislegt sniðugt sem hún gerir, hún Signý, sem sýnir mikla samskiptahæfni, þannig að við getum alveg verið róleg yfir þessu. Við höfum nefnilega alltaf staðið í þeirri trú að það væri mikilvægast fyrir barn að búa við öryggi, tilfinningalegt jafnvægi á heimilinu og geta treyst foreldrum sínum. Hitt kemur að sjálfu sér. En fyrst það er búið að ýta við okkur með þessar fáeinu kúnstir þá ætti ætti Signýju nú ekki að muna mikið um að læra þær á næstu dögum.

Eftir það höfðum við Vigdís þetta á bak við eyrað: að kenna henni að vinka, sýna hvað hún er stór og allt þetta hefðbundna, án þess að þrýsta neitt á hana. Það kann hún núna og gerir mjög vel. Hún vinkar eins og drottning með fallegan úlnliðsvinkil. Þegar hún sýnir hvað hún er stór verður hún líka ósköp stolt. Það sem er best er náttúrulega það að hún hefur gaman af þessu enda verðum alltaf svo kát með henni.

Engin ummæli: