Á sunnudaginn var skruppum við Vigdis á tónleika í Hallgrímskirkju þar sem Dómkórinn söng verk eftir Bruckner, Palestrina, Mozart og stórvirki eftir Lizst "Messe Choralis" (frumflutningur). Við buðum Sirrý (tengdó) með. Við vorum misjafnlega hrifin af verkinu en af því verður þó ekki skafið að flutningurinn var tilkomumikill með fimm einsöngvurum og áttatíu manna kór, ásamt orgelundirleik.
Dagana fyrir tónleika tók ég mig til af metnaði og leitaði uppi verkið. Þetta er lítið flutt stykki en það fannst þó á vínylplötu í tónlistarbókasafninu í Hafnarfirði (sem er vandaðasta tónlistarsafn landsins fyrir almenning). Geisladiskur hefði nú verið hentugri en ég lét samt til leiðast enda vissi ég af traustum plötuspilara gröfnum einhvers staðar undir dóti í geymslunni. Þegar á reyndi var ég ekki svo ýkja hrifinn af verkinu (og hlustaði þó í tvígang) en sit samt sáttur við minn hlut vegna þess að nú er ég búinn að tengja plötuspilarann minn við græjurnar. Það finnst mér býsna merkur áfangi á tölvuöld. Honum er komið haganlega fyrir á bak við allt sjónvarps/græju/DVD-settið þar sem plássið er hvort sem er illa nýtt. Hann sést ekki einu sinni, fyrr en vel er að gáð. Hljómurinn villir hins vegar ekki á sér heimildir, skrefinu nær lifandi hljómburði. Að sjálfsögðu er ég búinn í kjölfarið á öllu þess að draga fram vænan bunka af tónlist sem ég hef ekki hlustað á lengi og hugsa mér gott til glóðarinnar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli