þriðjudagur, júní 24, 2008

Upplifun: Garðvinna, hillur og rabarbari

Svakalega er veðrið búið að vera gott! Um helgina tók ég því fegins hendi að þurfa að vinna í garðinum. Leigusalinn var með boð uppi á efri hæðinni og fékk mig til að kíkja á garðinn með sér. Ég var búinn að sinna honum svo sem ágætlega, vökva og snyrta lauslega, en núna voru beðin tekin í gegn. Signý var dugleg að hjálpa mér og ég handlangaði til hennar rótum og arfa sem hún mátti setja í balann sem ég var með. Allt fór þetta svo í lífræna hauginn. Signy naut sín til fulls að skoða allt beðið í návígi, bæði dýr og plöntur og brá auðvitað á leik þess á milli.

Þegar ég var í miðjum klíðum heyrði ég nágrannan dröslast með dót úr á bílastæði. "Er verið að smíða?" spurði ég, enda sá ég hluta af húsgögnum hér og þar. Hún var víst á leiðinni út í Sorpu með húsgögn og spurði mig hvort okkur vantaði nokkuð rúm. Ég var ekki ýkja spenntur fyrir því að fá notað rúm inn til mín en spurði þess í stað hvort hún ætti ekki góða hillu handa mér, og viti menn, hún átti akkúrat hilluna sem var ekki til á lager hjá IKEA síðast þegar ég var þar! Þessa þurfti ég ekki að setja saman, ná í eða borga fyrir. Frábært, hugsaði ég með mér, og smeygði henni undir handlegginn (eða því sem næst). Ég vippaði henni yfir á lóðina mína og lappaði upp á hilluna, negldi inn bakið og svoleiðis.

Nokkru síðar reif leigusalinn upp rabarbara sem slútti yfir gagnstéttina, bara til að rýma til fyrir gestum. Ég leit á þetta sem tækifæri til að búa til eitthvað úr þessu magnaða hráefni. Það hefur einhvern veginn fyrirfarist undanfarin ár að gera rabarbaranum almennileg skil (bjuggum eitt sinn til sultu, en ekkert meira en það). Nú kom alfræðibók Nönnu að góðum notum enda lumaði hún á einfaldri aðferð við grautagerð. Það var einfaldara en mig grunaði og hljómaði nokkurn veginn svona:

Skerið rabarbarann og snyrtið, setjið í pott. Látið vatn rétt fljóta yfir. Fyrir hvert kíló af rabarbara, bætið við 100-200 gr. af sykri. Hitið að suðu og sjóðið í um fimm mínútur. Takið af hellunni. Bætið nú kartöflumjöli við (sem leyst hefur verið upp í köldu vatni - 2-3 msk), svona rétt til að þykkja.

Þetta skal ég sko gera oft á sumrin héðan í frá, því grauturinn er ótrúlega ferskur og góður. Svo ekki sé minnst á hvað þetta er einfalt! Fyrir utan skurð og snyrtingu á rabarbaranum er þetta einfaldara og fljótlegra en að sjóða kartöflur.

Engin ummæli: