þriðjudagur, júní 24, 2008

Sjónvarpið: Evrópumótið í fótbolta

Nú er fótboltapása í einu æsilegasta móti sem um getur. Mínir menn eru úr leik. Ég er afar ósáttur við það hvernig þeir spiluðu á móti Rússum og var eiginlega gapandi hissa á því hvernig þeir misstu dampinn. En í svona útsláttarkeppni er það nú bara þannig að það er ekkert lið sterkara en þeirra veikasta frammistaða. Miðað við síðasta leik áttu þeir ekki skilið að verða Evrópumeistarar, burt séð frá því hversu vel Rússarnir spiluðu. Þeir verða bara að hysja upp um sig og mæta enn betri næst. Mér skilst að þetta lið sé mjög ungt, á bilinu 22-26 ára flestir þeirra, þannig að þeir eiga tvö til þrjú góð mót inni ef að líkum lætur. Það sama á reyndar við um Rússana, sem eru víst með enn yngra lið, þannig að við megum eiga von á flottum stórmótum í fótbolta næstu árin.

Núna eru bara fjögur lið eftir. Þjóðverjar mega ekki vinna. Þá tæki ég það mjög nærri mér. Tyrkirnir hafa komist í undanúrslit með því að leiða leikina fjóra að baki í eina mínútu að meðaltali. Mér þætti ótrúlegt, beinlínis óeðlilegt, ef þeir ynnu mótið, en annað af þessum tveimur kemst samt óhjákvæmilega í úrslitin. Mér skilst að í Berlín verði Þjóðverjar og Tyrkir hlið við hlið að fylgjast með undanúrslitaleiknum, úti um öll stræti og torg, og margir þeirra halda með báðum liðum. Það er svolítið athyglisvert.

Svo ég færi það til bókar hér þá held ég með annað hvort Spánverjum eða Rússum í því sem eftir er. Mér fyndist mjög viðunandi ef annað þeirra ynni mótið, fyrst Hollendingar runnu á rassinn með þetta.

Engin ummæli: