Þær eru mjög nánar systurnar, sem von er, og nú eru þær farnar að herma hvor eftir annarri. Það er fyrirsjáanlegt með Hugrúnu, enda er Signý nokkrum skrefum á undan í þroska og viss fyrirmynd fyrir vikið. En þegar Signý er farin að herma eftir Hugrúnu þá tekur maður eftir því. Hugrún á það nefnilega til að sprengja loftkennt "p" af vörum. Ég veit ekki almennilega hvað þetta kallast á einföldu máli: Kannski að puðra. Eða fnæsa. Hestar blása svona af vörum þannig að varirnar víbra. Frakkar eru líka þekktir fyrir þetta. Þeir puðra/fnæsa sérstaklega oft, einkum þegar þeir leita svara og yppa öxlum. Pfrfrfr... og þetta gerir Hugrún þegar hún er óþreyjufull eða pirruð og fær ekki það sem hún vill. Signý gerði þetta hins vegar aldrei. Ekki fyrr en núna. Fyndið að sjá hana pirraða og puðra af vörum, alveg eins og systir sín.
Þær eru nánar og það gengur líka til baka með óvæntum hætti. Signý er stundum svolítið dramatísk, eins og áður hefur komið fram. Þegar allt gengur illa og hún kemst í uppnám þá grætur hún yfirleitt og andartaki síðar vælir hún eftir duddunni sinni. Það er tangarhaldið sem allt huggar. Hún fær ekki snuð að staðaldri og yfirleitt ekki nema á nóttunni (eða þegar hún er lasin, sem hefur verið öðru hvoru). En þetta hangir svona saman: Hún kemst í uppnám, vælir og byrjar að kalla í örvæntingu sinni "dudda! dudda!". Þessu hefur Hugrún tekið eftir. Núna er svo komið að þegar hún grætur og kemst í sams konar uppnám þá er stutt í að hún væli "dudda" eins og systir sín. En merkingin er önnur. Hún skilur þetta ekki sem "snuð", því hún notar snuð nánast ekkert. Þetta er svona meira eins og almennt neyðarkall. Það sést best þegar hún grætur eftir hlutum sem Signý tekur af henni. Þá heyrist í henni: Dudda! Dudda! Þá komum við til skjalanna.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli