Þegar ég sótti Signýju í leikskólann ákvað ég að splæsa á okkur ís. Hugrún var í bílnum líka svo ég leyfði þeim að bíða þar rétt við ísbúðina góðu. Ég var í augnsambandi við Signýju allan tímann og reiknaði með að vera fljótur. Yfirleitt tekur þetta örfáar mínútur að fá ís þegar lítið er að gera, eins og núna. Biðin var hins vegar þrisvar til fjórum sinnum lengri en venjulega. Fólkið á undan mér pantaði sér allt sitthvora gerðina af bragðaref (myndarleg íshræra með alls kyns bragðefnum). Það tekur alltaf lengri tíma. Fólkið þar á eftir var líka í einhverju sunnudagsskapi og dundaði sér við þetta. Svo var afgreiðslufólkið óvenju hægfara, utan við sig og ómarkvisst. Þetta voru þrjár ungar stúlkur sem ég kannaðist ekki við úr ísbúðinni, líklega nýbyrjaðar. Til að bæta gráu ofan á svart var ísinn eitthvað óvenju mjúkur og hélt ekki dýfunni almennilega. Það var reynt ítrekað en manninum á undan mér tókst ekki að fá venjulega ís í formi án þess að þurfa að baktryggja sig með boxi jafnframt. Þegar loksins kom að mér var ég búinn að vera að spennast upp, orðinn dauðþreyttur enda sífellt að kíkja um öxl eftir Signýju (sem enn var í augnsambandi og greinilega orðin þreytt). Í ljósi vandræðagangsins á undan mér var ég ekki í stuði til að panta mér einn venjulegan rausnarlegan ís í formi með dýfu og kurli. Ég þóttist skynsamur og lét mér nægja að panta mér einn lítinn í boxi, - þó með súkkulaðisósu. Ég hefði þó betur sleppt henni því það sem ég fékk í hendur var pínulítið box með fátæklegri íslufsu umkringda súkkulaðihafi sem var við það að flæða yfir barmana. Bara óþægilegt, ef maður ætlar sér að gefa með sér úr framsætinu. Það endaði því með því að ég gaf þeim Signýju og Hugrúnu standandi fyrir utan, eins stirðbusalega og það hljómar, svo það helltist nú ekki niður.
Vandræðagangur.
Á leiðinni út úr ísbúðinni sá ég tilkynningu. Hún skýrði nokkkuð vel hvernig stóð á öllum þessum erfiðleikum. Eigendurnir eru nýbúnir að opna nýja ísbúð á Grensásvegi. Þar er væntanlega allt reynda starfsfólkið saman komið í startholunum við að koma nýja staðnum á kortið. Verst að á meðan skuli afgreiðslan hér í Vesturbænum líði fyrir vikið. Þetta hlýtur þó að slípast til á nokkrum dögum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli