Ég tók eftir því sérstaklega í morgun að Signý er komin yfir það að taka endalok Stubbanna nærri sér. Í hvert sinn sem hún horfir á þá hefur hún endað með því að hágráta þegar þættinum lýkur. Þá gerist það nefnilega að allir fara að sofa, einn af öðrum, og þeir kvaddir formlega. Smám saman breytast ljósin á svefntjöldunum þeirra í fjarlægar stjörnur og það eina sem er eftir er stjörnuhiminninn. Þá hefur Signý alltaf farið að hágráta - þar til um síðustu helgi. Mér fannst það ekki fyllilega að marka þá vegna þess að hún var með flensu og ekki alveg lík sjálfri sér en í morgun endurtók hún leikinn og horfði á þáttinn til enda með jafnaðargeði.
Þetta er ágætt, eins konar framfaraskref, vaxandi æðruleysi kannski. Þau í leikskólanum hafa haft orð á því hvað hún Signý er tilfinninganæm og með mikið ímyndunarafl. Á sínum tíma gat hún ekki horft á Litlu ljótu lirfuna vegna þess hvað hún komst í mikið uppnám, bæði þegar köngulóin birtist og svo þegar lirfan breyttist í fiðrildi. Tárin flóðu. Sú mynd var tekin úr umferð fyrir um ári síðan. Kannski kominn tími til að tékka á henni aftur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli