laugardagur, maí 17, 2008

Fréttnæmt: Smá veikindagusa

Nú er Signý búin að vera svolítið lasin. Fyrir um hálfum mánuði þurfti hún að fara á sýklakúr. Svo var hún í góðu lagi í rúma viku eftir að því sleppti. Núna á miðvikudaginn var fékk hún aftur hita, sem jókst á öðrum degi. Vigdís var heima með þær báðar í þrjá daga, drógum það að leysa út lyf en það var eiginlega nóg komið á föstudaginn (eftir þriggja daga föstu). Signý missir nefnilega matarlystina mjög snögglega þegar hún veikist og grennist býsna hratt á nokkrum dögum, sem er alltaf áhyggjuefni. Vigdís fór í gærkvöldi á Jet Black Joe tónleikana í Höllinni og ég var einn með þær tvær. Signý var eitthvað byrjuð að borða, eftir fyrsta lyfjaskammtinn, svo þetta leit ágætlega út fyrir mig á meðan. Ég sinnti þeim samkvæmt venju og svæfði. Þá tók Signý upp á því að vakna rétt fyrir miðnætt og væla ámátlega. Hún kvartaði undan verkjum í maganum ("ég meiddi mig" segir hún og bendir á magann). Ég nuddaði hana mjúklega og hún virtist róast, en samt aldrei alveg. Svo kom "hinn djúpi ropi" og gusan í kjölfarið. Hún kastaði upp yfir rúmið. Það gerðist í tvígang með tiltölulega stuttu millibili, á tveimur mismunandi stöðum í íbúðinni (enda færðum við okkur um set eftir fyrra skiptið). Það er ægilegt að horfa upp á þetta hjá henni. Hún verður svo hrædd þegar hún gubbar. Svo veit hún ekkert hvernig hún á að vera þegar hún finnur fyrir ónotum og er í afneitun ef ég spyr hana hvort hún þurfi að gubba. En sem betur fer róaðist hún snarlega eftir seinna skiptið. Þegar ég var búinn að þrífa hana nógu vel sá ég hvernig hún slakaði loksins á og lognaðist hún út af á örskömmum tíma.

Í dag er Signý búin að vera hress og brosandi. Nú er lyfin farin að virka og hún er komin með þokkalega matarlyst, sem betur fer.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æ Æ ,elsku "kerlingin" ....
Þau verða svo hrædd þessar elskur ... og það gerir málið hálfu verra... þegar þau eru svona ung og vita ekki hvað er að gerast...Stundum getur verið gott að gefa þeim "build up" næringardrykk ...til að auka lystina....
Bestu kveðjur....Begga frænka...
Takk fyrir síðast.... :)