sunnudagur, júní 08, 2008

Daglegt líf: Þrjár ferðir austur

Undanfarnar þrjár vikur höfum við Vigdís farið austur fyrir fjall í þrígang. Fyrst fórum við að borða á Fjöruborðinu á Stokkseyri. Humar, mmm. Það var í tilefni af "deginum okkar", átjánda maí, en þá kynntumst við árið 2002. Um þetta hef ég reyndar skrifað og minntist þá á hvað þetta var vel heppnuð ferð. Viku seinna, á laugardegi, fórum við aftur austur í tilefni af ættarmóti í fjölskyldu Vigdísar. Þá var skjálftinn umtalaði nýafstaðinn og smá uggur í mönnum kannski, en gekk samt samt áfallalaust fyrir sig. Þær Hugrún og Signý létu hafa svolítið mikið fyrir sér þannig að maður kom lúinn heim eftir þetta. Svo var það núna um helgina að við tókum feginshendi boði Jóns Más og Margrétar um að gista í bústað sem þau hafa aðgang að í Grímsnesinu. Þau voru þarna alla helgina (við mættum á laugardegi) og töluðu um að jörðin hafi skolfið svolítið öðru hvoru. Vigdís fann líka fyrir smá víbringi núna í nótt. Þetta er samt allt á undanhaldi, held ég. Maður veit þó aldrei. En takk fyrir okkur, þetta var voða notalegt, og gaman að fara öll saman í Slakka eftir á (þar sem Signý naut sín til hins ítrasta).


Eftir ánægjulega bústaðaferð
Originally uploaded by Steiniberg.


Undanfarnar vikur hef ég verið duglegur að setja inn myndir á myndasíðuna. Þar má innan skamms sjá myndir úr öllum þessum ferðum, og auðvitað margt, margt fleira. Ég er búinn að koma mér upp á þægilega vinnurútínu og reikna með að standa mig í því að setja inn myndir, helst í hverri viku. Smellið endilega á myndina til að fá upp fleiri myndir úr ferðinni og lengra aftur í tímann.

Engin ummæli: